Útgerð og fiskvinnsla á Ströndum að stöðvast – ráðherra hvattur til að grípa til aðgerða


Hagsmunaaðilar í Steingrímsfirði sendu nýverið Jóni
Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem þeir lýsa áhyggjum
sínum varðandi aflaheimildir ýsu og erfiðs ástands á framsalsmarkaði.

 

Við Steingrímsfjörð á Ströndum starfa nú ríflega 20 smábátaútgerðir,
þar eru tvö fyrirtæki með bolfiskvinnslu og fiskmarkaður.  Sem heild eru þessi fyrirtæki megin grunnstoð
undir nærsamfélaginu þar eins og kemur fram í bréfinu. 

Vegna skorts á ýsukvóta er nú ekki lengur hægt að róa
starfsemi því sjálf hætt þar til úr rætist. 

 

Fyrir nokkrum árum hefði ýsa ekki verið „vandamál í
Húnaflóa, þorskurinn var yfirgnæfandi. 
Af þeim sökum er kvóti bátanna að mestu þorskur, engin ýsa á þeirra slóð
á viðmiðunarárum fyrir kvótasetningu.  Með
vaxandi ýsugengd var hægt að bjarga sér með leigukvóta.  Nægt framboð var, litlar hömlur á framsali og
verð viðunandi.  Á síðustu þremur
fiskveiðiárum var ýsuafli þessara 20 útgerða fjórfaldur miðað við úthlutaðan
ýsukvóta.  Alls leigðu þeir til sín rúm
tvö þúsund tonn á þessum fiskveiðiárum, 2007 – 2009.  Sé tekið mið af meðalverði á leigukvóta á
þessum tíma greiddu útgerðirnar um 200 milljónir fyrir þessar heimildir.

 

Vegna ofsafengins niðurskurðar á aflaheimildum í ýsu og
framsalstakmarkana breyttist umhverfið á örskotsstundu.  Nánast ekkert framboð á ýsu til leigu og
leiguverð rauk upp úr öllu valdi.  Það
sem af er þessu fiskveiðiári hefur verðlagningin farið út fyrir allt velsæmi.  Söluverð ekki náð að standa undir leiguverði
og kostnaði við veiðarnar.

Á yfirstandandi fiskveiðiári og fram til 8. janúar sl.
höfðu viðkomandi útgerðir leigt til sín rúm 300 tonn og greitt fyrir rúmar 60
milljónir.  Nú er svo komið að
útgerðirnar eru að stöðvast hver af annarri með tilheyrandi keðjuverkunum.  Þeir geta ekki nýtt þorskveiðiheimldir sínar
þar sem ýsa veiðist alltaf með.

 

Bréf til Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra er því kall og krafa um tafarlausar aðgerðir til að koma i
veg fyrir að atvinnulíf á Hólmavík og Drangsnesi lamist.  Næg ýsa er á slóðinni og er ráðherra hvattur
til að bæta nú þegar við ýsukvótann og liðka þannig fyrir framsali.

 

Í lok bréfsins er það einlæg ósk bréfritara til
alþingismanna að kynna sér betur aðstæður sjávarútvegs í landinu með tilliti
til þeirra gríðarlegu verðmætasköpunar fyrir landið sem verður til vegna starfa
alls þess fóks sem við sjávarútveginn vinnur.