Vegna fyrirspurna um björgunarbúninga

Undanfarið hafa all nokkrir félagsmenn haft samband við skrifstofu LS með þá fyrirspurn hvort skylda sé fyrir þá sem eru með báta stærri en 8 metra að vera komnir með björgunarbúning (a) um borð hinn 1. janúar n.k.

Til að hafa þessa hluti á hreinu var haft samband við Siglingastofnun og byggir eftirfarandi á því samtali:
Samkvæmt reglugerðinni sem gefin hefur verið út er skylda að vera kominn með búning(a) um borð 1. janúar n.k. á bátum 8 metrar og lengri.  
Á hitt ber þó að líta að Siglingastofnun hyggst ekki gera sérstaka allsherjar skoðun strax eftir dagsetninguna og því er málið alfarið á ábyrgð bátseigenda.  Í næstu aðalskoðun verður þetta tekið út sem hluti hennar.
Þá mun Siglingastofnun standa að úrtaksskyndiskoðun á nýju ári þar sem staðan verður m.a. athuguð varðandi björgunarbúninga. Þeir sem verða þá með gilt haffærisskírteini halda því fram að næstu skoðun, en þeir sem af einhverjum ástæðum eru ekki komnir með björgunarbúning(a) um borð verða beðnir að kippa því í liðinn.