Landssamband smábátaeigenda hefur talað fyrir daufum eyrum þegar vakin hefur verið athygli á yfir hundrað prósenta hækkun veiðigjalda í þorski og ýsu. Alþingismenn virtust og virðast þó hafa á hreinu að eitthvað þarf að gera til að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir. LS hefur bent á leið sem hægt er að fara og væntir þess að nýkjörnir alþingismenn láti málið til sín taka strax og þingstörf hefjast.
Breyttar reglur um greiðslu veiðigjalds kveða á um að gjalddagi sé 1. dag hvers mánaðar vegna veiða þar síðasta mánaðar. M.ö.o. reikningur sem útgerðir hafa fengið sendan og er á gjalddaga 1. nóvember er fyrir afla sem veiddur var í september.
Af samtölum við smábátaeigendur í dag er ljóst að mönnum er brugðið. Aflinn að mestu þorskur og ýsa þar sem veiðigjald hækkaði um 107% og 127% milli ára. Algengt er að gjaldið nú sé á milli 8,5 og 9% af aflaverðmæti. Fullyrða má að alþingismenn sem samþykktu lög um veiðigjald hafa ekki gert ráð fyrir að gjaldið gæti numið svo háu hlutfalli af aflaverðmæti sem nú blasir við.
Hér á eftir eru setningar sem hrutu af vörum smábátaeigenda í dag sem tjáðu sig um reikninginn.
- „Þetta gengur ekki upp
- „Veiðigjaldið er 8,9% af því sem ég fékk fyrir aflann í september
- „Við erum 2 um borð, nú hefur fjölgað um einn og hálfan háseta sem ekki láta sjá sig, en þiggja fulla greiðslu
- „Þetta er brjálæði
- „Ég er að gefast upp
Gríðarlega erfið staða sem kallar á tafarlaus viðbrögð ef ekki á illa að fara.