Veislunni í Noregi lokið

Það sem af er þessu ári hafa þorskveiðar í Noregi verið frjálsar hjá bátum undir 11 metrum. Veiðarnar hafa gengið afar vel og á þeim 11 vikum sem þær hafa staðið yfir eru þeir sem mest hafa veitt komnir yfir 400 tonn.  Alls hafa bátarnir fiskað 35 þús. tonn frá áramótum.
Frjálsar veiðar gengu þó ekki til allra smábáta í Noregi, undanskildir voru bátar 11 metrar og lengri.   
Að sögn norskra truflaði mikill meðafli af ýsu veiðarnar.  Því var gripið til þess ráðs að auka ýsukvótann.  Fyrst um 94% og síðan um 180%.   Upphafskvóti í ýsu á bátum í flokknum 10 – 11 m var 15 tonn.
Nú hafa norsk stjórnvöld tilkynnt að nóg sé komið, almenn stýring veiða smábáta minni en 11 metra tekur aftur gildi í dag 25. mars.   Þeir sem aflað hafa umfram 131 tonn hafa lokið þorskveiðum 2014, en aðrir geta haldið áfram þar til kvótanum er náð.
Frá og með 7. apríl tekur í gildi 20% meðaflaprósenta við þorskveiðar
Veiðiheimildir í þorski til báta minni en 11 metrar voru í upphafi árs 50 tonn en hafa nú verið auknar í 131 tonn.   Alls eru 1.173 bátar í minnsta kvótaflokknum þar af eru 130 yfir 11 metrum.  Þorskkvóti þeirra er 95 tonn.