Verndum handfærasvæðin fyrir togveiðum

Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi var haldinn á Borgarfirði (Firðinum fagra) 27. september sl.  Eins og vænta mátti þegar stórviðburðir eru á þeim stað var veður hið fegursta, blankalogn og sólskin.  Smábátaeigendur frá öllum byggðalögum allt frá Djúpavogi til Egilsstaða mættu í Fjarðarborg félagsheimili þeirra Borgfirðinga.
Ólafur Hallgrímsson formaður setti fundinn og greindi frá því helsta sem rak á fjörur félagsins á liðnu starfsári.  Meðal þess var ósk veiðarfæranefndar um að breyta skyndilokunum í lokun til tveggja ára á þeim stöðum sem tíðast hefur verið lokað fyrir handfærum.  
Frumvarp um breytingu á reglum um strandveiðar, þar sem félagsmenn voru vægast sagt tvístígandi um að þeir væru að fara inn í betra umhverfi.  Útfrá heildarhagsmunum væri breytingin þó réttlætanleg.
Fundurinn samþykkti fjölmargar tillögur til 34. aðalfundar LS.  Í þeim kom m.a. eftirfarandi fram:
    • Það er með öllu óskiljanlegt að togveiðar skulu vera heimilar svo nærri landi á viðkvæmum svæðum, svo viðkvæmum að í yfirgripsmikilli skýrslu starfhóps um endurskoðun á veiðarfærum – veiði- og  verndarsvæðum, er talin þörf á að vernda nærliggjandi svæði fyrir handfæraveiðum.
    • Að veiðigjöld skuli lögð á af hófsemi þannig að allir útgerðarflokkar séu skattlagðir af skynsemi en ekki af óhóflegri græðgi hins opinbera.
    • Séu lögð á í samræmi við afkomu hvers útgerðarflokks
    • Að landið skuli EKKI vera með einn sameiginlegan strandveiðipott.
    • Að línuívilnun verði aukin hjá bátum 15 metrar og styttri, sem stunda dagróðra. Línufiskur er eftirsótt gæðavara, auk þess eru línuveiðar mun umhverfisvænni en togveiðar.  
    • Krafa fundarins er að engar lokanir verði án undangenginna aldursgreiningar og stærðarmælinga á þeim fiski sem á að loka á.
    • Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi hafnar hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.
    • Leggur til að allar undanþágur til heimavigtunar og eða frávigtunar verði felldar úr gildi og allur afli verði endanlega vigtaður í þeirri höfn sem honum er landað í.
Stjórn Félags smábátaeigenda á Austurlandi
Ólafur Hallgrímsson formaður
Guðlaugur Birgisson varaformaður og ritari
Kári Borgar Ásgrímsson gjaldkeri
Alfreð Sigmarsson meðstjórnandi
Sævar Jónsson meðstjórnandi.
IMG_8758 (2).png