Einn af vorboðunum er rauðmaginn. Mörgum finnst hann hið mesta hnossgæti og hvað þá lifrin úr honum; Til eru þeir sem vita ekkert betra. Fyrir einhverjum áratugum var hún reyndar soðin niður og flutt út sem lúxusvara, trúlega til Austurríkis eða Sviss.
Rauðmagi í púinu. Eftir að grásleppan hefur hrygnt, lætur hún sér fátt um finnast og hverfur á braut. Eftir situr karlinn með allt uppeldið
Það eru nánast eingöngu Íslendingar sem kunna að meta rauðmagann til matar. Í Noregi er nánast óþekkt að borða hann, sömuleiðis á Grænlandi og á Nýfundnalandi er uppi sterk hjátrú meðal fiskimanna um að ekki megi drepa hann.
Rauðmagaveiðin þetta árið hefur verið með daprasta móti, hvar sem gripið er niður við landið. Sumir telja það vísbendingu um gengið á grásleppuvertíðinni, meðan aðrir hafna með öllu slíkum kenningum. Sú spurning hefur og komið upp hvort að mikil aukning á skötusel við landið sé um að kenna. Skötuselurinn þarf ekki að vera ýkja stór til að gleypa fullvaxinn rauðmaga og sjómenn geta borið vitni um að algengt er að finna hann í maga sköluselsins.
Þessum vangaveltum skal svo lokið með því að minna veiðimenn á að alla rauðmagaveiði ber að vigta, sem allan annan afla.