Vilja dragnótina burt úr Skjálfanda

Klettur, svæðisfélag LS Siglufjörður – Tjörnes, hefur sent sjávarútvegsráðuneytinu bréf um dragnótaveiðar í Skjálfanda.  Klettur krefst þess að dragnótaveiðar verði óheimilar innan línu sem dregin er úr norðurenda Flateyjar í Tjörnestorfu.
Í bréfinu segir m.a.: 
„Skip að stærðinni 283 brúttótonn með gríðarlega toggetu og veiðarfæri útbúið til bolfiskveiða á ekkert erindi á grunnslóð.  Afkastageta þess er í þriðja veldi á við það veiðarfæri sem miðað var við þegar undanþága var gerð fyrir dragnót til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands.  Jafnframt var litið til þess að veiðarfærið væri kjörið til veiða á flatfiski þegar undanþágan var veitt.  

Veiðislóðin sem veiðarfærinu er nú beitt á er viðkvæmt og þolir ekki þá ágengni sem beitt er með nútíma dragnót sniðin fyrir bolfiskveiðar.
Í niðurlagi bréfsins segir:
Að gefnu tilefni skal tekið fram að Klettur hafnar algjörlega þeirri staðhæfingu sem komin er frá Hafrannsóknastofnun að engu skiptir hvaða veiðarfæri er beitt við veiðar þegar litið er til sjálfbærra veiða.  Vakin er athygli á að fiskurinn hefur val um að bíta á krókana, en í dragnótina hefur hann ekkert val, smalað saman þannig að ekkert sleppur á svæðinu.  Stórvirkt togveiðafæri sem á ekkert erindi til bolfiskveiða á grunnslóð.

Klettur fer hér fram á að ráðuneytið bregðist nú þegar við og loki svæðinu fyrir veiðum með dragnót.
hafborg vs.pngMyndin er tekin er í Skjálfanda sem sýnir dragnótaveiðar Hafborgar EA innan um smábáta á handfæraveiðum.