Undanfarna daga hefur Grásleppunefnd LS fundað um fyrirkomulag á næstu grásleppuvertíð og þau vandamál og óvissu sem ríkir í sölumálum grásleppuhrogna.
Grásleppunefnd vinnur nú að umsögn við reglugerðardrög Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í þeim er gert ráð fyrir að veiðidagar verði aðeins 20, en lokaákvörðun um fjölda þeirra verði tekin að loknu vorralli Hafrannsóknastofnunarinnar í kringum 20. mars.
Grásleppunefnd LS hefur miklar áhyggjur af óseldum grásleppuhrognum frá vertíðinni 2012. Vegna þess vanda samþykkti nefndin:
Til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Grásleppunefnd LS hefur miklar áhyggjur af erfiðleikum grásleppuveiðimanna vegna óseldra grásleppuhrogna frá vertíðinni 2012.
Aðalfundur LS 2012 samþykkti að leggja til fækkun á veiðidögum um 30% á næstu vertíð. Kaupendur grásleppuhrogna telja það hins vegar ekki nægjanlega tryggingu til að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar og hafa því ekki tryggt sér þær birgðir sem liggja hjá sjómönnum.
Grásleppunefnd LS hefur ákveðið, vegna þessa og óvissu um fjölda veiðidaga, að óska eftir að byrjunartíma næstu vertíðar verði frestað.