Yfirlýsing frá Kjarasamninganefnd Landssambands smábátaeigenda
Vegna fyrirspurna um atkvæðisrétt aðila sem sagt hafa sig úr Landssambandi smábátaeigenda (LS) um þann kjarasamning sem LS hefur undirritað við SSÍ, FFSÍ og VM og er nú til kynningar og afgreiðslu meðal félagsmanna, skal eftirfarandi tekið fram:
Samningur þessi nær af hálfu LS aðeins til félagsmanna. LS hefur eðli máls samkvæmt ekki umboð utanfélagsmanna til að semja fyrir þeirra hönd, enda hafa þeir síðarnefndu sjálfir tekið þá ákvörðun að yfirgefa félagið og þar með aftengt þá möguleika að hafa áhrif innan þess. Þá hafa þeir hvorki tekið þátt í því starfi né kostnaði sem af gerð kjarasamnings leiðir.
Í kynningu á samningnum undanfarið hefur verið gerð grein fyrir því að hann mun einnig gilda sem lágmarkskjör fyrir þá sem standa utan LS. Í þessu sambandi skal vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þar segir í fyrstu grein:
„Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um,skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir allalaunamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hiniralmennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
Í þessu sambandi hefur og verið bent á að þeir aðilar sem standa utan LÍÚ hafa lotið kjarasamningi sem í gildi er milli LÍÚ og SSÍ, FFSÍ og VM.
Erindi því sem vísað er til í upphafi er því hafnað.
Hins vegar skal það sérstaklega tekið fram að þeir aðilar sem sagt hafa sig úr Landssambandi smábátaeigenda er velkomið að skrá sig á ný í félagið og öðlast þar með sama rétt og félagsmenn hvað varðar afgreiðslu kjarasamn-inga sem annarra mála.
Reykjavík 2. október 2012
F.h. samninganefndar LS
Pétur Sigurðson formaður Samninganefndar
Arthur Bogason formaður
Örn Pálsson framkvæmdastjóri