Ýsan veldur norskum vandræðum

Aðalfundur ACFNA – Samtök strandveiðimanna við N-Atlantshaf – var haldinn fimmtudaginn 6. febrúar sl.   Á fundinum var Bjørn Roar Jensen trillukarl í Noregi endurkjörinn formaður.
Á fundinum var gerð grein fyrir helstu málefnum hverrar þjóðar, en auk formanns og framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, mættu til fundarins Bjørn Roar Jensen frá Norges Kystfiskarlag, Bill Broderick frá FFAW á Nýfundnalandi og Tønnes Berthelsen frá KNAPK á Grænlandi.
Ýsan takmarkar þorskveiðar
Bjørn Roar Jensen Norges Kystfiskarlag þakkaði heillaóskir frá LS yfir frelsi báta styttri en 11 m til þorskveiða í upphafi kvótaársins (1. janúar 2014).  Hann sagði ákvörðun sjávarútvegsráðherra hafa verið gríðarlega mikilvæga fyrir smábátaútgerðina.  Aukning veiðiheimilda og að strandveiðiflotinn hefði ekki náð að fullnýta veiðiheimildir sínar í þorski á síðasta ári hefði haft mikið að segja við ákvörðun ráðherra.    
Eintóm hamingja væri þó ekki hjá trillukörlum í Noregi.  Veiðiheimildir í ýsu hefðu verið minnkaðar 2013 og nú aftur í ár.  Það gerði það að verkum að nær ómögulegt væri að veiða mikið af þorski þar sem ýsa fengist alltaf sem meðafli.  Ýsan er kvótasett og hefur hver bátur ekki nema um 5 – 7 tonna kvóta.  Óheimilt er að flytja veiðiheimildir milli báta, eini möguleikinn er að fá hann fluttan frá stærri bátum.  Þeir væru hins vegar lítt aflögufærir.  
Bjørn bætti við, aðspurður um veiðiheimildir, að allir nema fiskifræðingarnir gerðu sér grein fyrir gríðarlegu magni ýsu á miðunum.  Af þeim sökum hefði kvótinn ekki enn verið aukinn.
Fulltrúar LS greindu norskum kollega sínum frá því að vandamálið væri ekki óþekkt á Íslandi!
Grásleppuveiðar í lágmarki
Af grásleppuveiðum í Noregi er það að frétta að veiðin var í sögulegu lágmarki, aðeins rúmar 1.100 tunnur.  Þrátt fyrir verðlækkun í þorski hefði aðgangur að veiðunum verið góður og haft þau áhrif að færri fóru á grásleppu en verið hefur.  Þá jók það ekki áhuga sjómanna á grásleppuveiðum að verðið var lágt.
Mótmæla frjálsu framsali
Á árinu 2013 var mikil umræða um hvort minnka ætti takmarkanir sem gilda um færslu veiðiheimilda milli útgerðarflokka.  Norges Kystfiskarlag var mikið í þeirri umræðu og mótmælti öllum tilburðum í þá átt að stærri útgerðir gætu keypt veiðiheimildir af smábátum.  Samtökin vöruðu við neikvæðum afleiðingum þess á hinar dreifðu byggðir við strendur landsins.  Þær ættu allt sitt undir því að þar væri öflug útgerð smærri báta.  Með öflugum málflutningi hefði félagið þannig haft mikil áhrif á að hugmyndir í þessa veru hefðu ekki náð fram að ganga.
Sjómenn eldast
Í lok síðasta árs voru 11.577 sjómenn í Noregi  (þar með taldir sjómenn í hlutastarfi)  sem er 4% fækkun milli ára.   Fjöldi fiskiskipa var 6.133, megnið af þeim strandveiðibátar undir 15 metrum.  
Frá því kvótakerfið var innleitt í Noregi 1990 hefur meðalaldur norskra sjómanna hækkað úr 39,3 árum í 45,8 ár.  Þá hefur fjöldi sjómanna yngri en 30 ára lækkað úr 33% í 17% á sama tíma og hlutfall sjómanna eldri en 60 ára hefur hækkað úr 12% í 21%.
Nánar verður greint frá aðalfundi ACFNA á næstu dögum.