Ýsuhlutdeild krókaflamarksbáta verði aukin

Aðalfundur Kletts var haldinn á Akureyri í gær 18. september.  Fundurinn var ágætlega sóttur og ríkti góð stemning meðal fundarmanna.
Meðal fjölmargra mála sem rædd voru og ályktað um var ákvörðun ráðherra að fara í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla á yfirstandandi fiskveiðiári.  Fundurinn var á einu máli um að við endurskoðun á aflareglu fyrir þorsk væri brýnt að hækka hana og færa til fyrra horfs.  Óánægja var meðal fundarmanna með 20% niðurskurð í ýsu og greinilegt var að félagsmenn voru kvíðnir fiskveiðiárinu ef ýsa sem meðafli við þorskveiðar yrði eitthvað í líkindum við nýliðið ár.  Bent var á að úthlutunin mundi kalla á breytt sóknarmynstur, þar sem menn væru neyddir til að hverfa frá línuveiðum yfir á handfæraveiðar.
Fundarmönnum var tíðrætt um ákvörðun sjávarútvegsráðherra að leggja fram frumvarp á síðasta þingi þar sem lagt var til að 30% aflahlutdeildar í rækju yrði færður til aðila sem stundað hafa frjálsar rækjuveiðar undanfarin ár.  Atvinnuveganefnd Alþingis ákvað að gera enn betur, þ.e.a. skerðingin yrði helmingur.  Í raun er óskiljanlegt að tillaga Atvinnuveganefndar hafi nánast án umræðu verið samþykkt sem lög.  Segja má að með þessu hafi verið borað gat á hlutdeildarkerfið sem engan vegin er hægt að segja til um hvar endar.  
Samþykkt aðalfundar Kletts um aukna aflahlutdeild krókaaflamarksbáta í ýsu þarf því ekki að koma á óvart, en þar er farið fram á að hún verði færð til samræmis við veiðar þeirra undanfarin ár úr 15% í 25%.  Þeir hafi með leigu á veiðiheimildum úr aflamarkskerfinu áunnið sér reynslu sem óhjákvæmilegt er að tekið verði tillit til.
Stjórn KLETTS var kjörinn með dynjandi lófaklappi.  Formaður Kletts er Óttar Már Ingvason Akureyri og með honum í stjórn eru:
Einar Þorsteinn Pálsson Árskógssandi
Jón Kristjánsson Akureyri
Þröstur Jóhannsson Hrísey
Víðir Jónsson Grenivík sem kom nýr inn í stjón í stað Sigurðar Kristjánssonar Húsavík sem ekki gaf kost á sér.  Voru Sigurði þökkuð velunninn störf í þágu Kletts, sérstaklega aðkoma hans að grásleppumálum.
Sjá ályktanir aðalfundar Kletts –