Greiða tugi þúsunda fyrir fersk grásleppuhrogn

Í fiskbúðum og veitingastöðum í Danmörk er nú boðið upp á fersk grásleppuhrogn.  Varan þykir einstök og hefur vaxið í vinsældum með ári hverju.  Hægt er að líta á hrognin sem ígildi kavíars þó langt sé í land að þau komist nálægt hinum eina og sanna sem samanstendur af hrognum úr styrju.  Með verðlagningu vörunnar er hún flokkuð sem munaðarvara, enda hér um fersk grásleppuhrogn að ræða án nokkurra aukaefna.  Öll hreinsun til fyrirmyndar.

IMG_5854.png 

Í fiskbúð í Óðinsvé sem farið var í til að kanna verð og framboð, vakti það athygli að varan var ekki í fiskborðinu.

Afgreiðslumaður var hinn hressasti þegar spurt var um fersk grásleppuhrogn, sagðist svo sannarlega þekkja það mikla lostæti.  Vatt sér á bakvið og kom með sýnishorn.  

Án þess að spyrja um verð var strax óskað eftir 300 grömmum til kaups.  Hrognin voru nánast talin í ílátið og verð tilkynnt 1.050 krónur-.  

Ha!  Kostar kílóið 3.500 krónur?  

Já sagði sá danski og spurði sposkur á svip, vildirðu kannski eitt kíló!   

Kunni að meta húmorinn en sagði að 100 grömm myndu nægja.   

Þeir kunna þetta svo sannarlega Danirnir.  Bjóða uppá fersk grásleppuhrogn frá síðustu dögum janúar og fram yfir páska.  Jafnt í fiskbúðum og á matseðlum fínni veitingastaða er að finna grásleppuhrogn.  Skemmst er frá að segja að neytendur hafa tekið þessari nýju vöru afar vel.

Það að aðeins hafi verið keypt 100 grömm í fiskbúðinni skýrist að mestu á verðinu.  Eitt kíló af ferskum grásleppuhrognum umreiknað í okkar krónur leggur sig á kr. 70.000. 

gæðin.png

     Framborið á veitingastað