Grásleppuvertíðin – veiðidögum fjölgað


Reglugerð
 um hrognkelsaveiðar 2024 hefur verið breytt.  Veiðidögum hefur verið fjölgað um 15, verða 55 talsins. 

LS var upplýst um breytinguna eftir að ákvörðun hafði verið tekin.  Óskað verður eftir upplýsingum frá Matvælaráðuneytinu um hvaða aðstæður hafi komið upp sem leitt hafi til rúmlega þriðjungs fjölgunar veiðidaga.

Grásleppuvertíðin hófst 1. mars.  Í gær, 21. apríl, var búið að veiða 1.151 tonn.  Fjöldi landana á bakvið þann afla eru 792, sem leggur sig á að hver löndun hefur skilað 1,45 tonni.   Alls hafa 97 bátar hafið veiðar.

Á sama tíma í fyrra hafði vertíðin skilað 1.330 tonnum.  Þess ber þó að geta að þá hófust veiðar 20. mars, en á móti kemur að þá höfðu 107 bátar hafið veiðar.  

Afli sem hver löndun hefur skilað hefur lítið breyst milli ára, var 1,48 tonn á tímabilinu.  

Tölur eru unnar upp úr upplýsingum frá Fiskistofu