Grásleppureglugerðir í Samráðsgátt

Í lok síðasta mánaðar birtust drög að tveimur reglugerðum um grásleppu í Samráðsgátt stjórnvalda.  Reglugerð um hrognkelsaveiðar og reglugerð um úthlutun aflamarks til nýliða. Óskað var eftir athugasemdum frá LS.

Hér verður vikið að reglugerð um úthlutun aflamarks til nýliða.

Ásamt umsögn frá LS bárust tvær aðrar athugasemdir við nýliðareglugerðina. Frá Ánanaust slf. og Eydísi Jónsdóttur.

Í umsögn frá Ánanaust slf segir m.a.: „Með kvótasetningunni er búið að eyðileggja þá nýliðun sem þegar hefur orðið í greininni. Ég hef stundað veiðarnar samfleytt síðustu fjögur ár og kem mjög illa út úr kvótasetningunni. Ég hef lagt mikinn kostnað, keypt leyfi og annann búnað til veiðanna, sem er þegar orðinn verðlaus í dag. Mér finnst þess vegna að þið ættuð að skoða mál þeirra manna sem hafa stundað þetta síðustu ár, því við erum líklegastir til þess að ætla okkur að stunda þetta áfram. Manni er farið að gruna að þetta snúist ekki um grásleppuveiðar lengur, heldur hag fárra aðila. Allt sem snýr að þessari kvótasetningu finnst mér illa unnið og algjör óþarfi að kvótasetja grásleppu, svo mikið er víst að ekki er hún ofveidd.“

Í umsögn Eydísar kveður við svipaðan tón: „Við höfum stundað grásleppuveiðar í mjög mörg ár. Í desember 2021 keyptum við okkur stærri og öflugri bát og höfum því verið með 2 báta á grásleppuveiðum síðustu þrjú sumur til þess að reyna að hafa vinnu út úr þessu. Aðeins eitt ár af þessum fellur innan tímarammans og er því nýi báturinn ekki nýliði en fær samt ansi litla aflahlutdeild. 

Í skjali sem var í vinnslu 20.mars 2023 stóð: “Þá er lagt til að þeir sem hafi rétt og fengið leyfi til grásleppuveiða og stundað veiðarnar eftir 1. janúar 2020 fram að gildistöku laganna fái úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára skv. 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða. Er það lagt til í ákvæðinu svo tryggt sé að þeir nýliðar sem stundað hafa veiðar á grásleppu og lagt í fjárfestingu síðustu þrjú ár, fái úthlutað aflahlutdeild og geti haldið áfram veiðum sínum.”“

Í umsögn LS er ráðherra hvattur til að flytja frumvarp við upphaf þings um að lagabreytingar sem gerðar voru verði felldar úr gildi eða framkvæmd þeirra verði frestað í eitt ár. Vakin er athygli á samþykktum LS m.a. um sameiningu leyfa og að veiðidagar telji aðeins þegar net eru í sjó. 

Í athugasemdum við einstaka greinar segir:
Það er LS áhyggjuefni að samkvæmt 7. mgr. 8. gr. L. nr. 116/2006 verður ekki unnt að úthluta nýliðunarkvóta til aðila sem stunduðu grásleppuveiðar á tveimur undangengnum árum og eru því vissulega nýliðar. Jafnt á við þá sem stunduðu veiðar árið 2020. Þessir aðilar hafa ekki aflahlutdeild í grásleppu. Þeir hafa hins vegar stundað grásleppuveiðar og eru því utan þess ramma sem 1. ml. 4. gr. laga nr 102/2024 kveður á um.

4. gr. Úthlutun aflamarks til nýliða – 2. mgr.
LS vekur athygli á að verði leyfilegur heildarafli á grásleppuvertíðinni 2025
fjögurþúsund tonn er úthlutað aflamark að meðaltali milli 12 og 13 tonn. Gera má ráð fyrir að aðeins 12 bátar fái úthlutað aflamarki yfir 30 tonnum. Vissulega vill LS gera vel við þá einstaklinga sem eru að hasla sér völl í grásleppuveiðum.
Hámarksúthlutun er þó nokkuð rífleg þegar miðað er við aðila sem stundað hafa veiðarnar í áratugi.

Sjá umsögn LS í heild