Fiskistofa hafði ekki heimild til vinnslu upplýsinga úr drónum 

Birtur hefur verið á heimasíðu Persónuverndar úrskurður þar sem kvartað var yfir myndbandsupptökum Fiskistofu með dróna af fiskiskipi.

Meðfylgjandi eru nokkrar tilvitnanir úr úrskurðinum.  

Hann má lesa í heild með því að blikka hér.

„Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir myndbandsupptökum Fiskistofu með dróna. Nánar tiltekið var kvartað yfir að Fiskistofa hafi fylgst með veiðum fiskiskips og notað við það dróna með myndavél.“

„Niðurstaða Persónuverndar var að vinnsla Fiskistofu á persónuupplýsingum kvartanda hafi ekki grundvallast á vinnsluheimild. Þá samrýmdist hún hvorki meginreglu persónuverndarlaganna um gagnsæi né reglum um fræðsluskyldu. Með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á gildandi rétti og heimildum Fiskistofu til vinnslu persónuupplýsinga þótti ekki tilefni til að beina fyrirmælum til Fiskistofu í úrskurðinum.“

„Mál þetta lýtur að því hvort hvort eftirlit Fiskistofu með dróna í tveimur veiðiferðum fiskiskipsins [C], dagana [dags.] og [dags.], hafi verið í samræmi við lög nr. 90/2018 og hvort Fiskistofu beri að eyða myndbandsupptökum sem teknar voru í umræddum veiðiferðum.“

„Persónuvernd hefur áður úrskurðað í málum þar sem kvartað var yfir eftirliti Fiskistofu með dróna. Með úrskurði Persónuverndar 28. mars 2023, í máli nr. 2021030579 hjá stofnuninni, var komist að þeirri niðurstöðu að engin heimild hafi staðið til vinnslunnar, samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá var vinnslan ekki talin samrýmast 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna um gagnsæi, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, eða 1.-2. mgr. 17. gr. laganna og 12.-13. gr. reglugerðarinnar um fræðsluskyldu. Var það jafnframt niðurstaða Persónuverndar með úrskurði 4. september 2023, í máli nr. 2021020374 hjá stofnuninni. Í báðum tilvikum átti sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvörtun laut að sér stað fyrir 15. júní 2022, þ.e. áður en breytingarlög nr. 85/2022, til breytinga á lögum nr. 36/1992 um Fiskistofu, tóku gildi. Var niðurstaða Persónuverndar jafnframt sú að samkvæmt þeim lagaákvæðum sem voru í gildi fyrir 15. júní 2022 skyldi eftirlit Fiskistofu vera sinnt af eftirlitsmönnum í eigin persónu sem veittur yrði aðgangur að nauðsynlegum stöðum, s.s. skipum, flutningstækjum, geymslum eða öðru húsnæði.“