Afli til línuívilnunar hefur verið skertur umtalsvert á undanförnum árum. Með útgáfu reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fyrir yfirstandandi fiskveiðiár eru aðeins ætluð 800 tonn af þorski til línuívilnunar, rúmum þriðjungi minna en á síðasta fiskveiðiári. Ákvörðunin er strax byrjuð að ógna útgerð þeirra báta sem reiða sig á ívilnun. Lokað var á ívilnun í þorski 21. nóvember sl. Nýtt tímabil hefst 1. desember nk. og stendur út febrúar. Á því tímabili eru ætluð 350 tonn af þorski.
Línuívilnun frá árinu 2003
Línuívilnun var komið á fyrir tilstuðlan LS árið 2003. Upphaflega voru 300 bátar sem nýttu sér ívilninunina sem bundin við dagróðrabáta. Með samþjöppun kvóta og tilheyrandi fækkun báta hafa heimildir verið skertar.
LS hefur átt á brattan að sækja við að berjast gegn skerðingum á heimildum til línuívilnunar. Aðeins 800 tonn af þorski nú eru skilaboð um að fara eigi eftir tillögu „Auðlindarinnar okkar“ að afnema línuívilnun og því verkefni skuli lokið árið 2028.
LS mótmælti tillögu nefndarinnar harðlega og lagði til að línuívilnun yrði efld með auknum aflaheimildum til hennar sem fengnar yrðu með eftirfarandi breytingum:
„Sá hluti byggðakvóta sem nýttur hefur verið af skipum 15 metrum og lengri verði færður til strandveiða og línuívilnunar. Gullkarfi, keila og langa skulu boðin upp á skiptimarkaði.
Rækju- og skelbætur sem skipt hafa um eigendur skulu renna til strandveiða og línuívilnunar. Gullkarfi, keila og langa skulu boðin upp á skiptimarkaði.
Ályktun aðalfundar LS um línuívilnun.
Aðalfundur LS leggur til að dagróðrabátum minni en 30 tonnum og styttri en 15 metrar verði tryggð línuívilnun. Ívilnun verði 30% þar sem beitt er í landi, 20% við uppstokkun. Línuívilnun nái til afla upp að 7 000 kg í róðri.
Aðalfundur LS krefst þess að línuívilnun verði tryggð áfram og verði að lágmarki 1 500 tonn í þorski.
Auka verður heimildir til línuívilnunar
Það er skýlaus krafa LS að nægar veiðiheimildir verði til línuívilnunar svo ekki þurfi að koma til stöðvunar. Bent skal á að línuívilnun skilur milli feigs og ófeigs hjá mörgum línuútgerðum.
- „Smábátaeigendur verða að berjast gegn öllum áformum um að línuívilnun verði skert og jafnvel aflögð. Útgerð tuga smábáta stendur og fellur með línuívilnun og alls engin rök fyrir að ógna útgerð þeirra nema ef vera skyldi meðvituð ákvörðun að auka samþjöppun með færslu veiðiheimilda til stærri útgerða. Álít að búið sé að gera nóg í þeim efnum.“, sagði framkvæmdastjóri á aðalfundi LS þann 17. október sl.
Fjallað var um línuívilnun í sjónvarpsfréttum RÚV í gær 23. nóvember.