Þeir sem þekkja til minna skoðana vita að ég tel aðferðafræði og stofnstærðarmælingar Hafró stórkostlega á skjön við raunveruleikann, þ.e. upplifun sjómanna við sín daglegu störf á miðunum.
Ég set hér mynd sem sýnir þorskveiðina frá árunum 1944 – 2023 (80 ár), skipt í tvennt – 40 ár fyrir kvótakerfi (1944-1983) og 40 ára árangur þess (1984 – 2023). Þetta er helmingun á tímanum frá stofnári lýðveldisins.
Sú mynd sem fiskifræðingar drógu upp, fyrst árið 1972 í skýrslu Hafrannsóknastofnunar til Landhelgisnefndar og a.m.k. þar til í skýrslu Hafró 1983, (ég hef hreinlega ekki nennt að lesa lengra í skýrslufarganinu) var að afrakstursgeta þorskstofnsins væri á bilinu 450 – 500 þúsund tonn. Þessi niðurstaða tveggja fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar (Jóns Jónssonar og Jakobs Jakobssonar) getur ekki hafa byggst á öðru en aflagögnum – og heilbrigðri skynsemi.
Lýsingar þeirra á fiskveiðunum var að um algert stjórnleysi væri að ræða. Mér finnst því rökrétt af þeirra hálfu að hafa ályktað sem svo að fyrst þorskstofninn þyldi þessa miklu veiði áratugum saman í stjórnleysi, væri hægðarleikur að hann bæri 450 – 500 þúsund tonna veiði undir vökulum augum Hafrannsóknastofnunar.
Svo rann upp árið 1981. Það ár öfluðu Íslendingar (einir og sér – útlendingar farnir af miðunum) meira af þorski en nokkurntíma í veiðisögu þjóðarinnar frá landnámi, rúmlega 488 þúsund tonna. Þetta var niðurstaðan eftir 38 ára “gegndarlausa ofveiði”.
Árið 1984 kom kvótakerfið til sögunnar. Fyrstu 7 árin var það blanda aflamarks og sóknarmarks (daga). Því síðarnefnda var fundið allt til foráttu og árið 1990 var kerfið „hreinsað” af sóknarmarkinu utan þess að smábátaflotinn var enn að hluta utangarðs.
Til að stytta söguna var Hafró enn ekki í rónni. Árið 1995 var bryddað uppá svokallaðri „Aflareglu” – þ.e. hversu hátt hlutfall mætti veiða úr stofninum, miðað við stofnmælingar (togararalla Hafró í mars) ár hvert. Það eru 29 ár síðan.
Meðalafli, frá því aflareglan var tekin upp er sú lægsta frá stofnun lýðveldisins, 217.427 þúsund tonn (1995 – 2023).
Er ekki löngu tímabært að krefja Hafrannsóknastofnun svara við því hvernig á þessu stendur?