Mér finnst leiðigjarnt að afrita gamla texta sem ég hef skrifað og hef nánast aldrei gert það. En eftir að hafa hlustað á málæði framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ) sl. sunnudagsmorgun á Sprengisandi, gekk fram af mér.
Mitt í orðaflaumnum rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði skrifað grein í Fiskifréttir fyrir margt löngu sem ætti jafn vel við í dag sem þá. Ég lagðist í leit á tímarit.is og viti menn, greinin poppaði upp, undir fyrirsögninni „Af alvörumönnum og platmönnum“. Hún birtist 25. mars 1994, fyrir hartnær 31 ári síðan.
Ég endurskrifa hér greinina, set á tveimur stöðum innan sviga breytingar á tölulegum staðreyndum þar sem það á við. Ég læt lesendum eftir að dæma hvort þessi rúmlega þriggja áratuga skrif eigi við það sem á gengur nú um stundir. Greinin birtist undir fyrirsögninni:
„AF ALVÖRUMÖNNUM OG PLATMÖNNUM“
„Undanfarna daga hafa útvegsmannafélög LÍÚ fundað stíft vegna hins hrikalega vandamáls sem íslenskir trillukarlar eru í fiskveiðunum innan efnahafslögsögunnar. Það er að vonum. Þessi bleðill er einungis 738.000 ferkílómetrar og því öllum ljóst að þessir 1500 trillubátar (nú um 900) sem róa frá þessari 6000 km (nákvæmari síðari tíma mæling: 8464 km) strandlengju eru bókstaflega allstaðar að flækjast fyrir í góða veðrinu.
ALÞINGI ÁKALLAÐ
Þetta hefur útvegsmönnum verið ljóst lengur og betur en öðrum. Í örvæntingu sinni ákalla þeir nú löggjafarsamkomu þjóðarinnar og biðja hana að jafna það hrikalega óréttlæti sem þeir eru þolendur að af hendi þessara óþolandi trillukarla.
Að þeir skuli leita réttlætis síns þessa leiðina sýnir best hversu langt þeir eru leiddir. Þeir hafa nefnilega í gegnum tíðina verið mjög rausnarlegir á tilkynningar til þingmanna þess efnis hversu takmarkað vit þeir síðarnefndu hafi á sjávarútvegsmálum. En hér er ekkert grín á ferðinni. Staða útvegsmannanna framangreindu er orðin svo alvarleg að nú ráða þeir aðeins yfir um 93 til 94 prósentum af botnfiskveiðiheimildunum og hlutur þeirra í heildarafla landsmanna er kominn alla leið niður í 96 til 97 prósent.
Þessi hrikalegi sannleikur er svo sláandi að trúlega treysta útvegsbændur að jafnvel hinir annars vitgrönnu þingmenn, að þeirra mati, geti ekki annað en komið auga á þetta. Það er gjörsamlega ólíðandi að einhver skari af mönnum sem ekki stunda sjóinn á alvöru bátum og eru þaðan af síður alvöru sjómenn, ætlist til þess að geta haldið þessum þremur til fjórum prósentum af heildaraflanum. Þessum afla hafa þeir beinlínis verið að rupla og ræna eins og þjófar um nótt úr garði alvöruútvegsmannanna, garðinum sem þeir hafa af svo einstakri natni og nærgætni verið að rækta í áratugi með ómældu erfiði.
Auðvitað verður að stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Útvegsmennirnir eru alvöru menn. Þeir eiga alvöru skip, ráða eingöngu til sín alvöru sjómenn og veiða eingöngu alvöru fiska. Þetta skýrir að mestu hvers vegna þeir eru svo grafalvarlegir yfir aðsteðjandi vanda.
ÓSVÍFNI TRILLUKARLA
Einn þáttur þess vanda sem alvörumennirnir glíma við er sú ósvífni trillukarla að telja vandann í fiskveiðunum stafa af sífellt öflugri togskipaflota. Í kringum þessa ósvífni sína hafa trillukarlar fléttað heilmikla áróðursklásúlu um landhelgisstríðin, rétt eins og það komi málinu eitthvað við.
Hinn ósvífni áróður er eitthvað á þessa leið:
- Þegar fært var út í 3 mílur var verið að reka togskipaflotann fjær ströndinni.
- Þegar fært var út í 4 mílur var verið að reka erlenda togskipaflotann fjær ströndinni.
- Þegar fært var út í 12 mílur var verið að reka erlenda togskipaflotann enn utar.
- Þegar fær var út í 50 mílur var enn á ný verið að reka út erlenda togskipaflotann.
- Og þegar fært var út í 200 mílur var endanlega verið að losa landgrunnið við ryksuguflota annarra þjóða sem engu eirðu með togveiðum sínum.
Í framhaldi af þessu hafa svo hinir siðlausu áróðursmeistarar, trillukarlarnir, tengt hinn feiknalega öfluga togskipaflota sem alvörumennirnir eiga í dag og viljað læða því inn að þarna sé eitthvað samhengi. Sú tenging sýnir best fávisku þeirra.
Alvörumennirnir vita sem er að þegar nafn og heimilisfang þessara skipa er íslenskt, róta veiðarfæri þeirra upp botninum öllu lífríki til framdráttar og blessunar.
FRATI LÝST Á FISKIFRÆÐINGA
En ósvífni platmannanna á platbátunum ríður ekki við einteyming. Svo langt hafa þeir gengið í ómerkilegum málflutningi sínum að þeir lýsa frati á nákvæmni gagna fiskifræðinga. Þvílíkt og annað eins! Hvar endar þetta eiginlega! Alvörumennnirnir hafa alltaf tekið fullt mark á pappírum fiskifræðinga. Því hafa þeir margsinnis lýst yfir undanfarið og verkin þeirra tala sínu máli, því til staðfestingar.
Frá því fiskifræðingar hófu að gefa ráðgjöf um heildarafla þorsks hafa alvörumennirnir farið svo nákvæmlega eftir þeim tillögum að frá árinu 1977 hafa þeir aðeins veitt eitthvað á aðra milljón tonna umfram tillögurnar.
Þessar þungu byrgðar hafa þeir lagt á sig allan þennan tíma í þeirri barnslegu trú að þeir væru að byggja upp þorskstofninn. Og svo ætla einhverjir ótætis ekki sens trillukarlar að fara að eyðileggja allt þetta markvissa uppbyggingarstarf í einu vetfangi þegar komið er að sjálfri uppskeruhátíðinni.
RÁÐÞROTA ALVÖRUMENN
Er nema von að í hvíni, áratuga erfiði við uppbyggingu þorskstofnsins; allt á leiðinni í hundana vegna platmanna á platbátum og eins og yfiralvörumaðurinn sagði í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 í vetur: þeir fiska aldrei neitt, komast aldrei á sjó og skapa enga atvinnu.
Ja hérna.
ALVÖRUMENNIRNIR ERU AÐ VERÐA RÁÐÞROTA
Baki brotnu hafa þeir verið að strita við að minnka skuttogaraflotann úr 53 skipum árið 1975 í 112 skip árið 1992, hamast við að draga úr togkrafti þessa flota úr 50.000 hestöflum árið 1985 í 100.000 hestöfl 1993 og hafa farið svo nálægt tillögum fiskifræðinga að vart skeikar nema milljón tonnum og kannski þrjúhundruð þúsundum betur af þorski.
Alvörumenn sem svo vel hafa ræktað garðinn sinn eiga eðlilega kröfu til þess að fá að hafa hann í friði.
Arthur Bogason formaður
Landssambands smábátaeigenda