Grásleppuvertíðin – afli eykst í öll veiðarfæri

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á yfirstandandi grásleppuvertíð kom mörgum sjómanninum á óvart.  Útifyrir Vestfjörðum og Norðurlandi höfðu togarar orðið varir við mikið magn af grásleppu, sem þótti gefa vísbendngar á að stofninn væri öflugur. Mælingar úr stofnmælingu botnfiska (togararallinu) sem fram fór í mars sl. slökkti hins vegar vonir manna.  Stofnunin ráðlagði að ekki yrði veitt meira en 2.760 tonn.  Eins og komið hefur fram er það 32% minna en ráðlagt var á vertíðinni 2024.  

Ráðgjöfin er byggð á útreikningum á vísitölu, þeirri næst lægstu frá upphafi rallsins árið 1985.  Aðeins munaði 3,2% að útgefin ráðgjöf yrði núll tonn, það er að engar grásleppuveiðar hefðu verið heimilaðar.  Lægsta gildi á tímabilinu mældist aldamótaárið 2000, en hefði mælingin nú farið undir það gildi hefði það þýtt 0 tonn í ráðgjöf eins og áður sagði.

Aflatölur unnar af heimasíðu Fiskistofu sýna hins vegar að vel hefur veiðst.  Heildarafli kominn yfir eitt þúsund tonn, þar af 890 tonn veiðst í grásleppunet.  Þess ber þó að geta að heimilt var að hefja veiðar fyrr en verið hefur, en á móti eru bátarnir nú háðir útgefnu aflamarki sem ræðst af ráðlögðum heildarafla.

Í samtölum við grásleppukarla sem byrjaðir eru veiðar, er afli mjög góður við V-land, norður um og austur að Langanesi.  Þar fyrir sunnan er afli hins vegar í tregari kantinum.

Markaður fyrir grásleppuna er góður í ár.  Verð hefur farið hækkandi og góð eftirspurn eftir hrognum.  Að sögn kaupanda gæti markaðurinn tekið við mun meira magni en leyfilegt er að veiða.  

Ólíklegt er að útgefið aflamagn náist, þar sem það deildist á 260 báta og því margir með litlar heimildir og telja því ekki borga sig að hefja veiðar.  Þá eru fjölmargar útgerðir aðeins með útgefið aflamark í grásleppu og hafa því lítinn sveigjanleika á að leigja frá sér.  Framsal takmarkað innan tiltekinna veiðisvæða og helming útgefinna veiðiheimilda.  Þá er auk þess óheimilt að færa aflamark í grásleppu úr aflamarki yfir í krókaaflamarkskerfið.  Ofan á allt þetta bætist við að ætli menn að fara á strandveiðar er skilyrt að báturinn hafi ekki fært meira aflamark af sér en hann fékk úthlutað.   

Taflan sýnir grásleppuafla (óslægt í tonnum) frá áramótum að 10. apríl frá árinu 2022.

Grásleppa – aflastaða fengin á fiskistofa.is 
Áramót til 9. aprílGrásleppu-netTrollÞorska- netDragnótSamtalsHeildar- afli
2025890 T 98 Tonn 47 Tonn 8 Tonn 1.044 T????
2024504 T 51 Tonn 21 Tonn 5 Tonn 580 T 3.701 T
2023434 T 20 Tonn 15 Tonn 4 Tonn 472 T 3.797 T 
2022795 T 14 Tonn 27 Tonn 4 Tonn 840 T 4.207 T