Dagana 2. og 3. september sl. var haldinn í Bergen í Noregi vinnufundur Norrænu lífsiðfræðinefndarinnar undir yfirskriftinni ‘Siðfræði og hafið’. Til fundarins var boðið fulltrúum frá breiðum hóp aðila sem með einum eða öðrum hætti hafa málefni hafsins á sinni dagskrá, eða sem áhugamál. Þannig voru mættir heimspekingar, líffræðingar, erfðafræðingar, hagfræðingar og hvað eina, ásamt fulltrúum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Íslendingar voru drjúgir í mætingu, þ.á.m. fulltrúar frá LS og LÍÚ, ásamt forstjóra Hafró.
Umræðan var vægast sagt lífleg og hreinskilin. Það sem einkenndi þó þróun hennar var að hún sveigði ætíð inná þá braut að fjalla um stjórnun fiskveiða. Slíkt er ekki undrunarefni – síst Íslendingum – því úthlutun veiðiréttar er ekkert annað en siðferðilegt álitaefni þegar allt kemur til alls: Hverjir eiga að lifa og hverjir deyja?
Umræðan endurspeglaði að auki ákaflega vel hversu mismunandi ástandið er á hafsvæðum Norðurlandanna. Þau vandamál sem frændur okkar við Eystrasalt, Botníuflóa og Finnlandsflóa búa við eru þess eðlis að þægilegast er að leiða hugann hjá því að eitthvað sambærilegt geti beðið okkar sem búum við opið úthaf. Þrátt fyrir loforð um betrun og yfirbót varðandi losun eiturefna á þessum hafssvæðum er ástandið afleitt. Þá herjar þörungablómi á stóran hluta þessara svæða á vissum árstímum. Það undarlega er, að við það að draga úr losun vissra eiturefna (t.d. nitrogens), eykst þörungablóminn. Engin útgönguleið er í sjónmáli útúr þessum vítahring.
Eitt af því sem bent var á með mjög afgerandi hætti, var að þegar hagfræðingar boða sínar kenningar, sem að öllu jöfnu ganga út á að gróði og græðgi séu undirstöður framfara, segjast þeir séu síst af öllu vera að fjalla um siðfræði – heldur einungis hagfræði. Staðreyndin sé hinsvegar sú, að boðskapur þeirra sé í raun ekkert annað en sú siðfræði sem býður að mannlegir þættir séu lýðskrum og aukaatriði. Allt fari vel að lokum ef gróðafíkn og græðgi sé skipað í öndvegi.
Þessi vinnufundur var sá fyrsti sem sérstaklega fjallar um málefni hafsins frá þessu sjónarhorni. Fór því fjarri að þau fjölmörgu siðferðilegu álitaefni sem eru til staðar varðandi umgengni og nýtingu hafsvæða væru til lykta leidd. Enginn vafi er þó á því að siðfræði mun í framtíðinni vega æ þyngra við alla ákvarðanatöku stjórnmálamanna og vísindamanna um málefni hafsins.