Byggðaaðgerðir fari úr 5,3% í 8%

Á aðalfundi Félags smábátaeigenda á Austurlandi var mikið rætt um heimildir í þorski sem ráðstafað er til byggðaaðgerða.  Fundarmenn voru sammála um að þær eigi að hækka, en ekki gengi að auka hlut þeirra sem hafa aflahlutdeild í þorski.

Samþykkt var eftirfarandi tillaga til 41. aðalfundar LS sem haldinn verður 16. og 17. október nk.  

„FSA vill hækka heimildir til byggðaaðgerða í þorski úr 5,3% hlutdeild af leyfilegum heildarafla í 8%.  Aðalfundur FSA telur að með því væri hægt að tryggja línuívilnun, byggðakvóta og 48 daga tilstrandveiða. 

Útfærslu yrði breytt þannig að helmingur kæmi með 4% í stað 5,3%.  Til viðbótar kæmi 4% álag á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

FSA telur ekki réttlátt að skerða útgerðir landsins og leggur því til að þessi leið verði farin. 

Það er skoðun FSA að aukning umfram ráðgjöf muni ekki hafa áhrif á viðgang þorskstofnsins.  Auk þess að líklegt má telja að aukningin verði öll nýtt af dagróðrabátum sem veiða með kyrrstæðum veiðarfærum.  

Minnt skal á að lengi var svar fiskifræðinga þegar þeir voru spurðir um hvers vegna ekki gengi neitt að byggja upp þorskstofninn, var svarið „smábátarnir hafa verið frjálsir (dagakerfið)“.   Um langt árbil hefur allt verið eftir exel en ekki bólar á minnsta votti af bjartsýni hjá Hafró. Nú er ríkisstjórn félagshyggju við völd, henni er í lófa lagið að láta verkin tala.“