Grásleppan úr nefnd

Meiri hluti atvinnuveganefndar hefur afgreitt grásleppufrumvarpið til 2. umræðu. Lilja Rafney Magnúsdóttir er framsögumaður frumvarpisins, aðrir sem rita undir nefndarálitið eru: Sigurjón Þórðarson, Dagbjört Hákonardóttir, Eiríkur Björn Björgvinsson og Eydís Ásbjörnsdóttir.

Í nefndaráliti leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Í nefndarálitunu segir m.a.:

„Í frumvarpinu er lagt til að stjórn veiða á grásleppu verði færð í fyrra horf með vísan til þess að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 102/2024 þjóni hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnsins og þar með ekki hagsmunum almennings. Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og hins vegar lögum um stjórn fiskveiða þess efnis að áðurnefndar breytingar gangi til baka.“

„Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að við setningu reglugerðar um hrognkelsaveiðar verði hugað að veiðifyrirkomulagi tegundarinnar. Við umfjöllun nefndarinnar hefur verið á það bent að einn helsti löstur dagakerfisins við veiðar á grásleppu hafi verið ósveigjanleiki kerfisins, sem heimilaði ekki svigrúm til að draga upp net vegna slæmra veðurskilyrða og meðafla. Er það mat meiri hlutans að mikilvægt sé að tryggja sveigjanleika þannig að unnt sé að hefja veiðar t.d. þegar verð er hátt, gera hlé á veiðum ef veður eru váleg, vegna heilsufars og annarra þátta. Beinir meiri hlutinn því til ráðherra að við setningu reglugerðar verði skýr heimild til þess að fjarlægja veiðarfæri úr sjó við tilteknar aðstæður, þannig að dagafjöldi við veiðar telji ekki. Er það mat meiri hlutans að slíkt fyrirkomulag sé til þess fallið að bæta öryggi sjómanna og dragi úr óæskilegum meðafla, svo sem sel og teistu.“