Eftirfarandi grein eftir Kjartan Sveinsson birtist á Vísi 26.11.2025
Þegar stórútgerðin gleypir allt – er kominn tími á norskar lausnir?
“Í fyrsta lagi er það augljóst í allri umfjöllun norska atvinnuvegaráðuneytisins hversu mikils virði smábátaflotinn er í þeirra augum. Í skýrslunni kemur glögglega fram að ráðuneytið áttar sig á hve mikilvægar smábátaveiðar eru fyrir samfélagið, umhverfið og efnahagslífið. Félagslega gegna smábátarnir lykilhlutverki í heimabyggðunum; þeir skapa störf í dreifðum byggðum sem hafa ekkert annað til að reiða sig á, varðveita mikilvægan hluta menningararfs Norðmanna og opna upprennandi sjómönnum leið inn í atvinnugreinina.
Þegar litið er til umhverfisáhrifa eru veiðiaðferðir smábáta mun vistvænni, sem stuðlar að minni röskun vistkerfisins og betri verndun (og þar með nýtingu) auðlinda.
Efnahagslega eru smábátarnir hryggjarstykkið í atvinnulífi smærri sjávarþorpa, meðal annars með því að landa afla beint í heimahafnir, aðlagast auðveldlega breyttum aðstæðum og stuðla að verðmætasköpun ásamt því að nýta sérhæfð markaðstækifæri.”













