Í dag eru 40 ár liðin frá stofnun Landssambands smábátaeigenda.
Það var þann 5. desember 1985 sem trillukarlar alls staðar af að landinu komu til Reykjavíkur til að taka þátt í stofnfundi væntanlegra samtaka þeirra – Landssambands smábátaeigenda. Fundurinn var haldinn í Rúgbrauðsgerðinni að Borgartúni 6 Reykjavík.
Tll fundarins hafði boðað Arthur Bogason formaður undirbúningsnefndar. Hann setti fundinn og hélt hvatningaræðu.
Fundinum lauk með kosningu 7 manna stjórnar og jafnmargra til vara.
Arthur Bogason var kosinn formaður Landssambands smábátaeigenda.

Innan LS eru nú hátt í 800 bátar sem eigendur róa í flestum tilfellum einir eða með einn til þrjá menn með sér. Stjórn LS er skipuð 17 aðilum.
Heildarafli smábáta á síðasta fiskveiðiári var 76 þúsund tonn sem skilaði 34,3 milljörðum í aflaverðmæti og útflutningsverðmæti var tvöföld sú upphæð.
Hlutur smábáta í heildarafla þorsks var 23%, ýsuafli var 16% og steinbítur 23% heildarafla tegundarinnar.
Hæst hefur afli smábáta farið í 95 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017.
Þorskur er mikilvægasta fisktegund smábáta, um 68% heildaraflans. Aðrar tegundir sem mikilvægar eru fyrir smábáta eru ýsa, steinbítur, ufsi og grásleppa.
Við stofnun LS var afli smábáta um 20 þúsund tonn.
Á þessum merku tímamótum væri hægt að minnast fjölmargra þátta sem starf LS hefur skilað félagsmönnum. Tvö þeirra skulu hér nefnd.
A.
1. janúar 1991 komu til framkvæmda ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða þar sem kveðið var á um að allir smábátar 6 brl. og stærri voru kvótasettir (950 alls). Aðrir smábátar (1.100 alls) fengu aðlögunartíma til 1. september 1994 að ávinna sér aflaheimildir til kvóta í þorski þar skipt yrði milli þeirra 2,18% leyfilegs afla í þorski.
Aflahlutdeild þessa kerfis – krókaaflamark – til þorskveiðiheimilda nú er 17,5%.
B.
Landssamband smábátaeigenda var stofnað um þá kröfu að gefa handfæraveiðar frjálsar.
Árið 2009 var komið á sérveiðileyfi til handfæraveiða – strandveiðar. Veiðikerfið var lögfest ári síðar. Til strandveiða á árinu 2025 voru ætluð 11.032 tonn af þorski – 5,2% leyfilegs heildarafla. Alls 806 bátar voru á bakvið þann afla.
Smábátaeigendur.
Innilegar hamingjuóskir með félagið ykkar. Standið vörð um það hér eftir sem hingað til.
Kjartan Páll Sveinsson formaður Örn Pálsson framkvæmdastjóri













