Í smábátaútgerðinni eru menn alltaf að leita leiða til að lækka kostnað og hagræða.
Í samtölum við smábátaeigendur hefur komið í ljós að allmargir eru með tvöfalda slysatryggingu fyrstu 2 bótamánuðina ef þeir slasast við útgerðina. Kannski er þetta meðvitað, en ef menn hafa ekki gert sér grein fyrir þessu er ástæða til að halda áfram lestri.
Skýringar á þessu eru þær að aðilar hafa keypt sér slysatryggingu af Tryggingastofnun ríkisins (greitt slysatryggingagjald sjómanna vegna fiskveiða) auk viðbótartryggingar á almennum markaði sem hækkar slysabætur.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir bætur samkvæmt aflahlut sem launþeginn hefur orðið af í allt að 2 mánuði. Þegar útgerðaraðili, sem tekið hefur slysatryggingu hjá TR, er í vinnu hjá eigin fyrirtæki (ehf) og verður fyrir slysi á hann einnig rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins í jafnlangan tíma. Bæturnar miðast þá við reiknað endurgjald útgerðaraðilans ef ekki er um aflahlut að ræða.
Athygli er vakin á að dæmi eru um að slysatrygging með eins mánaða biðtíma eftir bótum er 40% dýrari en þegar biðtíminn er 2 mánuðir.
Hér með er þessu komið á framfæri í þeim tilgangi að benda mönnum á hugsanlega leið til hagræðingar sem og að vekja menn til umhugsunar um tryggingar.