Sl. þriðjudag var fjallað hér á síðunni um álit umboðsmanns, þar sem hann taldi ekki vera haldbært að túlka hugtakið „endurnýjun“ með þeim hætti sem sjávarútvegsráðuneytið hefði gert í svari til tveggja eigenda sóknardagabáta. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að það hafi eingöngu átt við við þegar viðkomandi hafi skipt um bát. Umboðsmaður telur hins vegar ekki vera lagagrundvöll fyrir því að útiloka þá aðila sem hafa aukið afkasta- og sóknargetu báta sinna með breytingum og lagfæringum á þeim eins og ráðuneytið hefði úrskurðað.
Frá því fréttin birtist hafa borist fyrirspurnir frá aðilum sem sagst hafa verið í breytingum með báta sína á þessum tíma. Þeir hafi eins og aðrir séð möguleika á að fá uppreikning vegna frátafa sem urðu vegna breytinga á bátum sínum. Þegar hringt var í Fiskistofu vegna þessa var svarið á þá leið að, reglugerðin tæki aðeins til þeirra aðila sem skipt hefðu yfir í afkastameiri báta á viðmiðunartímabilinu. Við það svar hefðu þeir ekki leitt frekar hugann að þessu máli. Við lestur fréttarinnar á heimasíðunni hefði hins vegar komið í ljós að skilaboð Fiskistofu hefðu byggst á ákvæði í reglugerð sem ekki hefði haft lagastoð. Á þessari stundu er ekki vitað um hversu stór þessi hópur er, en gera má ráð fyrir að hann fylli rúman tug.
Hver kannast ekki við í lagatexta „samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur“. Í svari sjávarútvegsráðuneytisins til umboðsmanns telur ráðuneytið orðalagið veita „ráðherra heimild til þess að skilgreina endurnýjun með þeim hætti, að það taki til þeirra tilvika þegar aðili, sem á bát fyrir fær sér annan bát og flytur aflaheimilldir af þeim sem hann átti fyrir til hins. Ráðuneytið telur að við undirbúning lagasetningarinnar hafi sá skilningur legið fyrir, að einungis gæti til mögulegrar aflahlutdeildaraukningar komið þegar aðili hefði tekið nýjan bát í rekstur á tilgreindu tímabili. Endurbætur, lagfæringar og breytingar á bátum sem hugasanlega ykju afkastagetu þeirra stæðu hér fyrir utan.“
Umboðsmaður er þessu ósammála og telur að reglurnar eigi að taka mið af því sem fram kemur í lögunum og við túlkun skuli tekið mið af umræðum á Alþingi um málefnið. Orðin opni því ekki leið fyrir ráðherra að hafa reglurnar þrengri en það sem megi ráða af framangreindu, né skilningi sem legið hefði fyrir hjá framkvæmdavaldinu við undirbúning lagasetningarinnar.