Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Akranesi var haldinn í gær. Auk venjulegra aðalfundarstarfa lá fyrir fundinum tillaga um heiti á félaginu. Nokkrar hugmyndir um nafn komu fram og þær flestar tengdar örnefnum á miðunum eða frægum bátum. Meðal þeirra voru: Bræður, Byr, Stafn, Breið, Sæljón, Hraun, Faxi Tindur. Félagsmenn hafa nú málið til meðferðar til næsta aðalfundar sem haldinn verður í september nk.
Fundurinn samþykkti nokkrar ályktanir.
Meðal þeirra var að taka undir ályktun LS um hrygningarstoppið, fundurinn lagði ríka áherslu á að það yrði tvískipt. Fyrri hlutinn félli inn í páskana og síðari hlutinn frá 8. til og með 21. apríl.
Einnig var samþykkt að beina því til sjávarútvegsráðherra að veita undanþágu nú í ár til veiða með 9” riðli í þorskanetum.
Stjórn félagsins var endurkjörin að undanskildum Berki Jónssyni sem baðst undan áframhaldandi stjórnarsetu. Í stað Barkar kom Stefán Jónsson.
Stjórn Félags smábátaeigenda á Akranesi skipa eftirtaldir:
Gísli S. Einarsson
Gísli Geirsson
Guðmundur Elíasson
Rögnvaldur Einarsson
Stefán Jónsson
Samkvæmt venju mun stjórnin skipta með sér verkum á fyrsta fundi sínum.