Aðalfundur Kletts ályktar um loðnu og flottrollsveiðar

Aðalfundur í Kletti, svæðisfélagi smábátaeigenda, Ólafsfjörður Tjörnes, var haldinn sl. sunnudag 25. september. Fundurinn var vel sóttur þrátt fyrir leiðindaveður og færð. Fjölmargar ályktanir voru samþykktar til aðalfundar Landsambands smábátaeigenda, sem fjölluðu um margvísleg málefni er lúta að stjórnun fiskveiða. Meðal þeirra voru eftirfarandi um loðnu og flottrollsveiðar:

Flottrollsveiðar

Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að banna flottroll við veiðar á loðnu og síld þar til að Hafrannsóknastofnun setur fram sannanir um að þær séu ekki skaðlegar vistkerfinu.

Loðnuveiðar

Fundurinn skorar á hæstvirtan sjávarútvegsráðherra og Alþingi að draga mjög verulega úr loðnuveiðum í og utan íslensku efnahagslögsögunnar. Sér í lagi að öllum sumar og haustveiðum verði hætt. Það þýðir á mannamáli að uppvaxandi ungviði loðnunnar verði með öllu látið í friði. Þegar litið er til framtíðar, þá verði öllum loðnuveiðum, nema til manneldis hætt. Mjöl og lýsisvinnslu verði lokið, utan vinnslu á úrgangi frá manneldisvinnslunni.Akureyri_7-23-100.jpg
Myndin sýnir hluta fundarmanna