Línufiskur – verðminna og lakara hráefni? Rýnt í gögn fiskmarkaða

Skömmu áður en Alþingi samþykkti frumvarp sjávarútvegsráðherra um línuívilnun (15. des) birtust í fjölmiðlum upplýsingar úr skýrslu sem kynnt var af Sigurgeiri Brynjari Kristgeirssyni, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Skýrslan átti að sanna fyrir landsmönnum að allar fullyrðingar um framúrskarandi gæði línufisks væru goðsagnir og samantekt á gögnum frá fiskmörkuðum afhjúpaði þá staðreynd að bein verðmætasóun væri fylgifiskur þess að stunda og hvað þá efla krókaveiðar.

Undir þetta tóku fjölmargir, eftir að hafa hlýtt á boðskap þessarar “vönduðu” skýrslu. Þeir lýstu vanþóknun sinni á málflutningi LS og fullri andstöðu við þá ætlun Alþingis að auka veg línuveiða. Þar fóru fremstir framkvæmdastjóri LÍÚ og stjórnarmenn af sama bæ sem lýstu gjörningnum sem milljarðasóun fyrir þjóðarbúið vegna línuívilnunar og smábátaútgerðar yfirleitt. Síðast en ekki síst ritaði Hjörtur Gíslason pistil í Morgunblaðið þann 11. desember sl. (“Það sértækasta af öllu sértæku”) þar sem gengið er út frá upplýsingum framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar sem stóra sannleik. Í pistli sínum gengur Hjörtur reyndar enn lengra og verður því svarað innan tíðar.

LS mótmælti strax “niðurstöðum” þessarar skýrslu. Augljóslega var verið að bera saman gjörólíka hluti og því fráleitt að kynna hana sem sönnun þess að línufiskur sé lakara hráefni en annað af íslenska fiskiskipaflotanum. Tilraun til að greina upplýsingar fiskmarkaðanna er hvergi í henni að finna, s.s. stærðarflokka, magn og fleira. Það verður að teljast afar hæpið að þessi “vandaða” skýrsla hefði nokkru sinni litið dagsins ljós ef það hefði verið gert. T.d. er alkunna að mjög stór hluti afla smábátaflotans fer á fiskmarkaðina en sáralítill hluti togaraaflans. Þá vantar með öllu samanburð á fiskverði í beinum viðskiptum, en LS mun innan skamms taka saman upplýsingar um þau verð sem greidd eru í slíkum viðskiptum.

Fiskifréttir tóku að hluta ómakið þann 19. des. en blaðið hafði óskað eftir gögnum frá Samtökum uppboðsmarkaða þar sem gerður er samanburður á verði þorsks milli einstakra stærðarflokka, veiðarfæra og fleiri atriða. Greinin ber heitið “Samanburður á verði þorsks eftir stærðum og veiðarfærum” og birtist hér orðrétt, með leyfi Fiskifrétta. Í henni er tafla yfir verð slægðs þorsks en ekki sundurgreining í tölum á verði óslægðs vegna þess að ekki er seldur slíkur fiskur í gegn um uppboðsmarkaðina frá togaraflotanum. Er þeirri töflu því bætt við í lok greinarinnar. (Vakin er athygli á því að stærðarflokkun er sú sama og í “slægðu” töflunni). Á næstu dögum verða birtar hér á síðunni ítarlegri upplýsingar um þessi mál.

Grein Fiskifrétta:

“Skiptar skoðanir eru á útspili Vestmannaeyinga í síðustu viku í deilunni um línuívilnun. Eyjamenn reiknuðu út að verðmesti þorskurinn væri veiddur í net og í troll miðað við meðaltalsverð á fiskmörkuðum síðustu sjö árin. Þetta töldu þeir sanna að yfirburðargæði línufisks væri goðsögn ein.

Þessu hefur verið mótmælt meðal annars á þeirri forsendu að netafiskur og trollfiskur að hluta til, sem seldur er á mörkuðum, sé valinn fiskur en mest allur fiskur krókaaflamarksbáta fari á fiskmarkað. Þá hefur verið bent á að eðlilegra væri bera saman einstaka stærðarflokka eftir veiðarfærum. Til frekari glöggvunar á samanburði á verði þorsks á fiskmörkuðum óskuðu Fiskifréttir eftir meðfylgjandi gögnum frá Samtökum uppboðsmarkaða um meðalverð á þorski eftir mismunandi stærðum og veiðarfærum. Þar kemur fram að miðað við slægðan þorsk fyrir tímabilið,2003-0-20 er botnvarpan með hæsta meðalverð í fjórum stærðarflokkum, línan í þrem og í einum flokknum eru þessi tvö veiðarfæri jöfn og hæst. Athygli vekur að netafiskurinn er ekki með hæsta meðalverðið í neinum stærðarflokki, ekki einu sinni í stærsta fiskinum. Hvað óslægðan þorsk áhrærir þá er línufiskurinn með hæsta meðalverð í öllum stærðarflokkum en netafiskurinn selst á lægra verði en færafiskurinn í öllum stærðarflokkum nema einum. Togaraþorskurinn er ekki í þessum samanburði vegna þess að togarar landa öllum sínum þorski slægðum.

Ósagt skal látið hvort þessi samanburður gefi rétta mynd af gæðum fisks eftir veiðarfærum eða ekki því enn er þeirri spurningu ósvarað hvort og að hve miklu leyti einstök skip velja besta fiskinn inn á fiskmarkaði”.

Samanburður á verði á slægðum þorski á fiskmörkuðum 2000 – 2003 eftir veiðarfærum og stærð (Meðalverð í krónum á kíló) (Heimild: Samtök uppboðsmarkaða)

Stærð kg……..Botnvarpa…….Lína…….Net……..Handfæri
1,3 – 1,7……..132……………..132…….125……..114
1,7 – 2,0……..142……………..154…….125……..135
2,0 – 2,7……..158……………..148…….142……..131
2,7 – 3,5……..168……………..167…….163……..146
3,5 – 5,0……..184……………..192…….165……..172
5 +…………….226……………..218…….214……..194
Allt + 5……….250………………233…….220……..210
Allt + 8……….253………………266…….255……..248“

– – – – –

(Viðbót LS)

Samanburður á verði á óslægðum þorski á fiskmörkuðum 2000 – 2003 eftir veiðarfærum og stærð (Meðalverð í krónum á kíló) (Heimild: Samtök uppboðsmarkaða)

Stærð kg………….Lína…….Net……….Handfæri
1,3 – 1,7………….105……..91………..100
1,7 – 2,0………….123……..108………106
2,0 – 2,7………….134……..117………122
2,7 – 3,5………….153……..131………142
3,5 – 5,0………….165……..145………154
5 +…………………184……..156………179
Allt + 5…………….195……..177………186
Allt + 8…………….212……..193………200

Við þetta vil ég aðeins bæta því við. Þarf ekki að gera ítarlega skýrslu um föst viðskipti, t.d. hvað Sigurgeir Brynjar hefur borgað sínum togskipum í föstum viðskiptum en á þessu tímabili tel ég hans skip vera með hvað lægst verð á þorski á öllu landi. Það vita allir að Vinnslustöðin hefur verið langt frá markaðsverði á þorski fyrir sín togskip, það þarf ekki nema skoða heimasíðu Verðlagstofu til að sjá hvað hefur verið að gerast um borð í Jóni Vídalín á undanförnum árum. Hvers vegna Sigurgeir fer í svona leik þegar allir vita hvað hann vil borga sínum skipum fyrir fiskinn. kveðja