Bátafélagið Ægir í Stykkishólmi fagnar 45 ára afmæli

Á föstudaginn var, 29. apríl voru liðin 45 ár frá því Bátafélagið Ægir í Stykkishólmi var stofnað. Félagið efndi til skemmtunar á afmælisdeginum og fjölmenntu félagsmenn til hennar.Bátaf.jpg

Í ræðu sem formaður félagsins Símon Sturluson flutti á þessum tímamótum kom fram að „það var þann 29. apríl 1960 að nokkrir smábátaeigendur komu saman til fundar í kaffistofu Sigurðar Ágústssonar í þeim tilgangi að stofna með sér samtök.
Á stofnfundinum var Höskuldur Pálsson kosinn formaður, Lúðvíg Halldórsson ritari og Kristján Jakobsson gjaldkeri til vara voru Ingvi Kristjánsson og Ingvar Breiðfjörð.“
Því næst rifjaði Símon upp að í fundargerð frá þessum tíma kæmi fram að tilgangur félagsins var meðal annars:
„Að vinna að því að afgreiðslu og leguskilyrði fyrir báta félagsmanna séu í góðu lagi.
Að ná sem hagkvæmustu kjörum með vátryggingar á bátum félagsmanna.
Að koma á samræmdum gjaldtaxta fyrir flutninga með bátum
og að vinna að skipulagningu á sölu á afla félagsmanna.“

Símon sagði frá fyrstu ályktuninni sem Bátafélagið Ægir sendi frá sér 17. september 1960. Þar var dragnótaveiðum mótmælt og ályktunin send Fiskifélagi Íslands.
Símon sagðist greina það í fundargerðum félagsins að mikill kraftur hefði verið í félaginu fyrsta einn og hálfan áratuginn, en síðan hefði komið 11 ár sem engin starfsemi hefði verið í félaginu. Á stofnári LS, 1985, hefði félagið hins vegar verið endurreist og formaður kosinn Björgvin Guðmundsson. Þá var efst á baugi í félaginu viðleguaðstaða smábáta og var samþykkt að leggja til að sú aðstaða yrði inni í Maðkavík, en í framhaldinu kom fram tillaga frá Hafnamálastofnun um þá útfærslu sem er í dag og var sú tillaga samþykkt af félagsmönnum.

Af Björgvini tók við Kristinnn Gestsson árið 1990, en formaður frá 1991 hefur verið Símon Sturluson.Simon Ægir 8-0-05.jpg

Í ræðunni vék Símon af fyrstu fundargerðum félagsins. Þar sæist glöggt að helsta vandamál félagsmanna væri „fiskverðið og það að losna yfirleitt við fisk og eftir að það hefði tekist hófst önnur glíma sem fólst í að fá greitt fyrir aflann.“ Símon sagði það hafa haft mikil áhrif á kjör félagsmanna þegar fiskmarkaðir hefðu komið til sögunnar.
Símon sagði ótrúlegan fjölda mála hafa komið til umræðu í félaginu auk þess sem þegar hefur verið minnst á. Þar mætti nefna grásleppuveiði, sala á hrognum, hagsmunaárekstrar við æðarbændur, svæðalokanir á línu, hafnarmál, ígulkerjaveiðar, lífeyrismál, kvótasetning smábáta og margt fleira.

Í lok ræðu sinnar þakkaði formaðurinn félagsmönnum þann góða hug sem þeir sýndu félaginu með því að fjölmenna til afmælisfagnaðarins.
Auk ræðu formannsins, var myndasýning frá lífi og störfum trillukarla í Stykkishólmi sl. 60 ár ásamt fréttaúrklippum af störfum þeirra (sjá sýnishorn frá 1987)scan0021.jpg, Einar Karlsson flutti erindi um bátasmíði og eyjalíf, Guðmundar Gunnarssonar sýndi myndband sem hann tók við höfnina 1986 – 1987. 45 ára afmælisfagnaði Bátafélagsins Ægis lauk með því stiginn var dans undir hljómfalli Beitukóngana frá Stykkishólmi.