Beint samhengi milli lækkandi meðalþyngdar þorsks og minnkandi aðgengis hans að loðnu

Föstudaginn 27. maí sl. efndi Hafrannsóknastofnun til málstofu þar sem
Höskuldur Björnsson sérfræðingur á Veiðiráðgjafasviði stofnunarinnar flutti
erindið, Fæða þorsks og vöxtur. Erindið var mjög fróðlegt og varpaði
skýrara ljósi á þætti sem verið hafa í umræðunni og sjómenn hafa velt fyrir
sér. Má þar nefna hversu skörun loðnu og þorsks hefur minnkað á
undanförnum árum og sá tími sem hann hefði aðgang að henni hefði styst.
Undanfarin ár hefði t.d. austurgangan varla farið vestur fyrir
Vestmannaeyjar.

Höskuldur sagði beint samhengi vera á milli lækkandi meðalþyngdar þorsks
frá 1996 og minnkandi aðgengis hans að loðnu. Í fæðugögnum
Hafrannsóknastofnunarinnar sem er mest safnað í mars og október er
loðna um 50% af því sem hefur verið greint og gögn um samhengi
meðalþyngda þorsks og loðnu sýna einnig fram á mikilvægi loðnunnar en
meðalþyngdir þorsks í afla lækkuðu um yfir 20% á árunum kringum 1982 þegar
loðnustofninn var mjög lítill. Þess má geta að í rallinu 2004
var 6 ára þorskur um 15% léttari en hann var á árunum kringum 1996
þegar meðalþyngdir voru frekar háar.

Höskuldur lauk erindinu með því að velta fyrir sér hvort aðrar fæðutegundir
gætu komið í staðinn fyrir loðnu, og þá hvaða, ef núverandi atferli hennar
verður viðvarandi.