Nýverið birti Morgunblaðið grein eftir Ragnar Sighvats, félagsmann í Skalla, félagi smábátaeigenda á Norðurlandi vestra. Hér er birtur útdráttur úr greininni:
Vísindi sjómannsins veitir bestu þekkinguna
Í Veri Morgunblaðsins 9. desember sl. var birt ályktun frá Samtökum dragnótaveiðimanna. Þar eru fullyrðingar og samþykktir sem ekki eru til að auka álit á þeim klúbbfélögum. Vitna þeir í að aldrei hafi verið vísindalega sannað að dragnótaveiðar væru skaðlegar og til væru rannsóknir sem bentu til hins gagnstæða. Það er gott að hafa vísindin sem göngustaf, en í þessum tilvitnunum tel ég hann hafa brotnað. Það er fjallgrimm vissa að vísindi sjómannsins sem stundar sínar veiðar í fjörðum og flóum þessa lands, veitir bestu þekkinguna um hvernig á að ganga um auðlindina.
Það er staðreynd að dragnótaveiðar hafa í gegnum áratugi verið mikill skaðvaldur á fjörðum og flóum hér við land og eru til mörg dæmi um það að tæplega hefur fengist í matinn eftir að búið var að skarka með þetta veiðarfæri í einhvern tíma. Voru það tógin sem notuð voru til að hífa dragnótina sem að fóru illa með botninn, en þetta voru vasaklútaveiðarfæri miðað við þau ósköp sem þeir klúbbfélagar nota í dag og bátar orðnir margfalt stærri með öflugri vélum.
Dragnótin í dag
Við skulum taka smá dæmi af meðal dragnót svo fólk geti gert sér grein fyrir stærðarhlutföllum á þessu veiðarfæri. Höfuðlína 60-70 m, opnun 10-14 m, fótreipi 70-80 m, sverleiki á vírum 28-36 mm, víralengd á borð 2,2 – 2,7 km. Útreikningur þessarra talna skilar 4,4 – 5,5 km köstunarhring.
Auk þessa eru bátarnir margir hverjir komnir með svokölluð rokkhopperagúmmí sem sett eru á fótreipið með jöfnu millibili til að geta dregið yfir sárari botn. Því er ekki erfitt að sjá að þetta veiðarfæri er stórbrotið og hlífir hvorki fiski né botni þar sem það fer yfir.
Ördeyða á Skagafirði
Hér á Skagafirði hefur það gerst í gegnum árin að tvisvar hefur orðið ördeyða vegna dragnótaveiða og lagðist mest öll trillubátaútgerð niður í firðinum sem kom mjög hart niður á mörgum sem stundað höfðu þennan veiðiskap. Vorið 1964 var opnað fyrir dragnótaveiðar eftir margra ára lokun á Skagafirði. Það tók ekki mörg ár að ganga frá fiskislóðinni þannig að algjör ördeyða varð í firðinum, en á þessum tíma voru dragnótabátarnir sem stunduðu veiðarnar af stærðinni 8-20 tonn og með sameiginlegt vélarafl á við einn sæmilegan dragnótabát í dag. Þá voru þessir bátar með smá vasaklútaveiðarfæri miðað við þau ósköp sem notuð eru í dag við þennan veiðiskap.
Það var í fjölmörg ár að ekki þýddi að renna færi nema úti á Skagagrunni og setti ég ekki vélina í bátnum mínum í gang fyrir minna en 5-8 tíma stím eftir því hvort ég veiddi á innra eða ytra Skagagrunni.
Dragnótin í hafnarkjaftinum
Síðustu 2-3 árin virðist vera að glaðna til í aflabrögðum hér á firðinum enda hafa dragnótaveiðar verið í lágmarki í langan tíma. Er þá ekki sökum að spyrja að dragnótabátar frá ýmsum stöðum flykkjast hingað og gera sig heimakomna og talsvert er um að þeir kasti dragnótinni þegar þeir eru komnir vel út fyrir hafnargarðinn, þótt friðað svæði sé innan við línu er dregin er úr Fagranesi þvert yfir fjörðinn og í Elínarhólma. Þeir hafa sjálfsagt ekki áhyggjur af þessum brotum sínum því þegar köstunarhringnum lýkur eru þeir komnir langleiðina út úr friðaða hólfinu, þó dragnótin sé 2 km aftan við bátinn. Á þessu sést að ekki er stoltið burðugt hjá þeim klúbbfélögum í ályktunum sínum því þeir hamra á því að veiðarfæri þeirra þrífist best á grunnsævi innan um trillu- og árabáta.
Vilji Skagfirðinga er skýr
Þar sem við hér í Skagafirðinum höfum slæma reynslu af dragnótaveiðum tókum við okkur saman nokkrir og söfnuðum 400 undirskriftum um bann við þessum veiðum frá línu sem dregin er úr Ketubjörgum í Almenningsnöf. Það hefði verið leikur einn að þrefalda fjöldann á þessum undirskriftarlista ef við hefðum beitt okkur við það. Sveitarstjórn samþykkti svo þessa beiðni okkar og sendi svo öll gögn til sjávarútvegsráðuneytis til meðferðar þar. Ég ætla svo að vona að ég eigi ekki eftir að rekast á jafn ómálefnaleg rök, hvorki í ræðu né riti, sem þessir félagar ætlast til að geta sagt fólkinu í héruðum víða um land og sveitarstjórnum fyrir verkum eins og fram kemur í grein þeirra og eflaust ætlast þeir til mikils frá ráðuneytinu.
Úr 40-80 tonna bátum í 0-3-200 tonna skip
Minnst er á hinn hefðbundna vertíðarflota í greininni, ekki veit ég hvað hann er hugsaður í stórum bátum en þegar ég byrjaði á vertíðum í Eyjum 1959 voru algengustu vertíðarbátar 40-80 tonn og tel ég ekki marga báta af þessari stærð eftir sem stunda dragnótaveiðar, samanber Sjómannaalmanakið. Aftur á móti eru komnir bátar sem eru 0-3-200 tonn að stærð og ný smíðaðir bátar frá Kína sem eru hannaðir fyrir dragnótaveiði svo allir geta séð sem vilja að mikið af þessum bátum eru ekki í minni kantinum og ættu því ekki að hafa kvíðboga fyrir að fara úr fjöruborðinu.
Skagafjörður er þekktur fyrir uppeldisstöðvar margra fisktegunda, ekki síst fyrir síld og þorsk svo það er nauðsynlegt að vernda hann eftir bestu getu. Að láta dragnótabáta skarka með víra sína á botninum um allan fjörðinn er svipað og að slóðadraga tún með stórvirkum tækjum. Þetta er nú allur heilagleikinn í verndunarsjónarmiðum hjá þeim klúbbfélögum.
Það er minnst á það að gott samkomulag er milli báta með dragnót og önnur veiðarfæri í Faxaflóa og fyrir utan höfnina í Ólafsvík og er það ágætt ef svo er. Ég tel mig vera í sæmilegu sambandi við fólk víðað um land, en aldrei hef ég heyrt að dragnótaveiði sé höfð í hávegum nema hjá þeim sem þann veiðiskap stunda og hafa hagsmuna að gæta.
Að lokum þetta. Það er að skapast þung undiralda víða um land gegn dragnótaveiðum og henni verður ekki snúið við. Þá er bara að laga sig að breyttum tímum í þjóðfélaginu.
Ragnar Sighvats
sjómaður á Sauðárkróki