Er grálúðan rústir einar?

Undanfarna daga hefur mikil umræða verið um ástand þorskstofnsins. Í slíkri umræðu vilja aðrar tegundir oft gleymast þó ærin ástæða sé til að hafa áhyggjur af viðgangi þeirra. Ein þessara tegunda er grálúðan sem er 64% verðmætari en þorskur. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var útflutningsverðmæti hennar tæpir 4 milljarðar á árinu 2004, eða jafnmikið og samanlagt verðmæti steinbíts, löngu, keilu, skötusels og skarkola.
Í samantekt um kvótastöðu sem birtist hér í gær vakti það athygli hversu mikið er eftir af grálúðu, eða um helmingur veiðiheimilda.
Á sl. fiskveiðiári 4-20-2003 var heimilt að veiða 4-4-26 tonn af grálúðu en það ár veiddust aðeins 0-7-15 tonn, eða 60%. Gera má ráð fyrir að veiðin nú verði 13-14 þús. tonn sem er víðsfjarri því sem heimilt er að veiða.
Í ljósi þess að ekki hefur tekist að ná kvótanum þrátt fyrir 8 þúsund tonna niðurskurð, vekur það athygli að Hafrannsóknastofnun skuli leggja til óbreyttan heildarkvóta, sem sjávarútvegsráðherra ákvað að fara eftir. Það segir þó ekki allt því tillaga Hafrannsóknastofnunar sl. 10 ár hefur ávallt miðast við heildaaflamark fyrir A-Grænland, Ísland og Færeyjar. Þrátt fyrir að hlutur Íslands í veiðunum hafi aðeins verið 50-70% þá hefur sjávarútvegsráðherra ekki séð ástæðu til að úthluta því hlutfalli hér, heldur úthlutað 100% eða 30-40% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Viðmælendur www.smabatar.is telja að þetta sé nú að koma okkur í koll, þ.e. að veiðar á grálúðu innan landhelginnar hafa í raun sætt litlum takmörkunum.
Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að afli á sóknareiningu hefur aldrei verið lægri en á síðasta ári (2004), eða aðeins fjórðungur af því sem hann var 1985. Það er í samræmi við lækkun stofnvísitölu síðustu fjögurra ára, sem á sl. ári var sú lægsta frá upphafi mælinga. Ljóst er því að veiðiálag hefur verið gríðarlegt sem lýsir sér í að sóknin hefur þrefaldast frá árinu 1999.
Það er íhugunarefni þegar ofanritað er lagt til grundvallar og það borið saman við ráðgjöf og veiðar að enn skuli veiðast grálúða. Á sl. 10 árum hefur veiðin verið 60% umfram ráðgjöf, eða 107 þús. tonn sem er jafn mikið og Hafrannsóknastofnun ráðlagði að veitt yrði á sl. 6 fiskveiðiárum, eða frá 1. september 1999.