Í tilkynningu sem Fiskistofa hefur birt á heimasíðu sinni kemur fram að eingöngu eru sendir út greiðsluseðlar fyrir veiðileyfi á komandi fiskveiðiári til útgerða skipa sem hafa varanlegar aflaheimildir og verða samkvæmt skrá Siglingastofnunar með gilt haffærisskírteini 1. september n.k. Alls eru það 941 skip sem uppfylla slík skilyrði, 553 krókaaflamarksbátar 386 aflamarksbátar og 2 sóknardagabátar.
Athygli er vakin á að veiðileyfi verður ekki sent til útgerðaraðila fyrr en greiðsluseðill hefur verið greiddur. „Það er því öruggara að greiða seðilinn í tíma svo leyfisbréf berist í tæka tíð fyrir upphaf komandi fiskveiðiárs“ eins og segir í tilkynningu Fiskistofu.
Samkvæmt breytingu sem gerð var á lögum um stjórn fiskveiða í apríl sl. eru veiðileyfi nú gefin út í fyrsta skipti ótímabundin, en ekki fyrir tiltekið fiskveiðiár.
Aðilar sem ekki hafa varanlegar aflaheimildir á skipum sínum verða að sækja sérstaklega um veiðileyfi.