Á annað hundrað manns sóttu fund Snæfells í gærkveldi: „Hvað er að gerast í sjónum“. Fundurinn var að öllu leyti uppbyggilegur og fræðandi og var gerður góður rómur að málflutningi frummælenda.
Í fundarlok ávarpaði formaður Snæfells, Símon Sturluson, fundinn og þakkaði þátttakendum fyrir góðan fund, sérstaklega beindi hann orðum sínum til Hafrannsóknastofnunar, en á fundinn mættu 4 sérfræðingar stofnunarinnar.
Fundurinn samþykkti ályktun sem er eftirfarandi:
„Opinn fundur Snæfells – félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi haldinn í Ólafsvík 26. janúar 2005 – átelur vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar sem viðhöfð voru við ákvörðun um reglugerðarlokun á sunnanverðum Breiðafirði 6. nóvember sl. Stofnunin sagði of hátt hlutfall ungþorsks vera í afla línubáta og því hefði hún lagt til við sjávarútvegsráðherra að hann lokaði veiðisvæðinu. Forsenda tillagna stofnunarinnar til ráðherra voru lengdarmælingar sem reiknaðar voru til aldurs.
Snæfell mótmælti ákvörðun sjávarútvegsráðherra harðlega og benti á að þó fiskur væri undir viðmiðunarmörkum Hafrannsóknastofnunar væri hér um fisk sem orðinn væri kynþroska og eldri en 4 ára. Hann ætti því að veiða en ekki friða.
Snæfell ákvað að ráða til sín óháðan vísindamann til að gera rannsóknir á þorski smærri en 55 cm. Niðurstöður liggja nú fyrir. Á veiðisvæðinu er hægvaxta kynþroska fiskur undir viðmiðunarmörkum.
Fundurinn harmar að röng ráðgjöf hafi orðið til þess að hamla atvinnu fjölda manns á Snæfellsnesi í einn og hálfan mánuð.
Fundurinn krefst þess að ríkisstjórn Íslands láti fara fram heildarendurskoðun á reglum sem gilda um lokun veiðisvæða og að framkvæmt verði mat óháðra aðila á friðunarstefnu Hafrannsóknastofnunar á smáþorski og árangri hennar við uppbyggingu þorskstofnsins.
Þar til niðurstaða liggur fyrir verði sjávarútvegsráðherra óheimilt að beita reglugerðarlokunum á grunnslóð nema fyrir liggi aldursgreining á grundvelli rannsóknar af kvörnum eða af hreistri.“