Frétt frá plánetunni MCS

Þegar lesnar eru tilkynningar frá hinum ýmsu sjálfskipuðu sérfræðingum í fiskveiðum hist og her, hvarflar vafalaust að einhverjum að þær berist í raun frá plánetu í fjarlægu sólkerfi.

Þann 9. febrúar sl. birtist í breska dagblaðinu The Guardian frétt um enn eina slíka tilkynningu, í þetta skipti frá MCS (Marine Conservation Society) – Breska hafverndarfélaginu – http://www.mcsuk.org/index.htm

Í fréttinni er greint frá því að MCS beini því til neytenda að sniðganga þorsk, ýsu og aðrar tegundir í útrýmingarhættu. Í tilmælum MCS eru tegundirnar flokkaðar í þrennt fyrir neytendur – besta kostinn, næstbesta kostinn og síðan tegundir sem ber að sniðganga. Tilkynningin í heilu lagi er hér: http://www.mcsuk.org/press/pr04.htm

Ýsan í útrýmingarhættu!

Ekki verður þessi tilkynning rakin hér í smáatriðum, en það hlýtur að vekja sérstaka athygli að ýsan er sett í þann flokk sem neytendum ber að sniðganga. Þetta hljómar sem lélegasta aulafyndni í eyrum fiskimanna við Atlantshafið, sem geta borið vitni um að sé einhver stofn í gríðarlegri sókn er það einmitt ýsan. Í þessu sambandi skal þess getið að ýsustofninn á Miklabanka, sem liggur austur af Kanada og Bandaríkjunum, er talinn í svo gríðarlegum vexti að innan fárra ára verði farið að veiða úr stofninum í mjölframleiðslu.

Þá er einnig að finna á listanum þorsk, karfa, löngu, rauðsprettu og skötusel, ásamt því að tilkynningin er botnuð á þessa leið: “Forðist að neyta djúpsjávartegunda því þær eru langlífar og hægvaxta, verða seint kynþroska og því viðkvæmar fyrir ofveiði. Djúpsjávartegundir eru jafnframt að stórum hluta utan reglugerða og stjórnun þeirra stórlega ábótavant”.

Á hinn bóginn kemst hinn risasvaxni stofn síldar sem Íslendingar rífast um við Norðmenn ekki í flokkinn “besti kostur”.

MCS býður neytendum að sjálfsögðu að kaupa – fyrir aðeins 10 pund – “MCS góða fisk-leiðarvísinn”. Vonandi fylgir honum stjörnukort svo hægt sé að átta sig á því á bjartri vetrarnóttu hvaðan þessi skilaboð berast.