Svæðisfélag LS, Klettur á Norðurlandi hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna undanþágu sem veitt hefur verið til dragnótaveiða inn allan Eyjafjörð. Tilkynningin er svohljóðandi:
SVÆÐISFÉLAGIÐ KLETTUR Félag smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi mótmælir harðlega þeirri undanþágu frá banni við dragnótaveiðum á Eyjafirði sem dragnótabátnum Sólborgu EA í eigu BRIMS hf, hefur verið veitt. Klettur hefur sent hæstvirtum sjávarútvegsráherra Árna M. Mathiesen áskorun um að fella þessa undanþágu nú þegar úr gildi.
Greinargerð:
Það er með ólíkindum að sjávarútvegsráðuneytið veiti slíkt leyfi án nokkurs samráðs við útgerðaraðila á svæðinu, ekki síst með tilliti til þess að útgerð Sólborgar hefur á sl. misserum orðið uppvís að því að fara á svig við gildandi reglur um svæðisbundnar dragnótaveiðar með „útflöggun“. Svæðisfélagið Klettur hefur á undanförnum árum margoft ályktað um dragnótaveiðar og hafa þær ályktanir allar verið á þá leið að færa veiðarnar utar í firðinum, þær eru í dag leyfilegar utan línu sem dregin er réttvísandi austur – vestur um Hríseyjarvita, jafnframt hefur félagið mótmælt harðlega öllum undanþágum frá gildandi reglum. Dragnótaveiðar á svæðum sem friðuð hafa verið til margra ára fyrir togveiðarfærum eru ekkert annað en skemmdarstarfsemi og má það með ólíkindum teljast ef að stærstu útgerðarfyrirtæki landsins telja sig ekki geta komist af nema með því að fremja skemmdarverk á friðuðum svæðum. Það hlýtur að vera sem köld vatnsgusa framan í þá aðila sem vinna að kynningu íslensks sjávarútvegs á erlendri grund undir kjörorðinu að hér séu stundaðar „ábyrgar veiðar“. Fiskgengd í Eyjafirði hefur verið í örum vexti á undanförnum árum og hafa útgerðarmenn smábáta með kyrrstæðum veiðarfærum geta nýtt sér þessa auknu fiskgengd í sinni útgerð. Það er því með mikilli skelfingu sem þessir sömu útgerðarmenn horfa upp á stórvirkt veiðiskip skarkandi með togveiðarfæri á veiðislóð sem jafnvel hefur verið friðuð í áratugi, eða aldrei verið leyfð dragnótaveiði á.
Virðingarfyllst
f.h. svæðisfélagsins Kletts
Pétur Sigurðsson formaður