Í hádeginu í dag var Einar Hjörleifsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun með erindi í Málstofu Hafró undir tiltlinum ‘Af aflasveiflum við Færeyjar’.
Erindi Einars var hið fróðlegasta og salurinn troðinn af áheyrendum. Það var að vonum, því færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið er iðulega borið saman við það íslenska – og sitt sýnist hverjum.
Mismunandi fyrirkomulag veiðanna ekki skýringin
Einar hóf mál sitt á því að segja að oft væri deilt um það hvort fiskveiðistjórnunarkerfi framleiddu fisk annarsvegar eða eyddu honum hinsvegar. Hann taldi þau gögn sem hann sýndi ekki styðja þær fullyrðingar að aflabrögð við Færeyjar einkenndust af því hvernig veiðunum hefði verið stjórnað þar í gegnum tíðina.
Aflinn, allt fram til ársins 1995, hefði verið nokkuð stöðugur og ekki ósvipaður því og verið hefur frá árinu 1997. Í hinu stutta millibili – það er frá 1. september 1994 – 1. júní 1996 var sett á kvótakerfi, hliðstætt því íslenska. Einar sagði enga skýringu á því hvers vegna þorskstofninn við Færeyjar hefði verið svo stöðugur á sama tímabili og fjölmargir aðrir þorskstofnar hafi sveiflast eða minnkað gríðarlega.
Fallandi meðalþyngd ekki tilefni til aukinna veiða
Gögnin taldi Einar hrekja fullyrðingar þess eðlis að þegar meðalþyngd félli bæri að auka veiðar. Stærstu árgangarnir sem komið hefðu fram við Færeyjar undanfarin 10 ár bentu síður en svo til þess. Þyngaraukning þorskins við Færeyjar liggur nánast á sömu línunni og hjá þeim íslenska, nema sá færeyski er ári fyrr að ná meðalþyngd og tveimur árum fyrr að verða kynþroska, trúlega vegna stöðugra hitafars og kröftugra strauma við Færeyjar. Greinilegt væri að stærð árganga réðist áður en þeir kæmu inní veiðina. Þá væri athyglisvert að þrátt fyrir að veiðidauði hefði verið lágur á tímabilinu 1972 – 1996, raunar innan þeirra marka sem fiskifræðingar teldu æskilegt, hefði hrygningarstofninn minnkað.
Að öllu samanlögðu taldi Einar að mismunandi fiskveiðistjórnunaraðferðir væru ekki skýringin á viðgangi fiskistofna við Færeyjar.
Færeyska svæðafyrirkomulagið
Í lok fyrirlesturins brá Einar hinsvegar upp mynd af svæðafyrirkomulagi því sem Færeyingar framfylgja, þar sem t.d. stórum línubátum eru bannaðar veiðar innan 6 mílna, allar togveiðar bannaðar innan 12 mílna og raunar á stórum hluta landgrunnsins, netaveiðar bannaðar fyrir ofan 350 metra dýpi og fleira. Þetta fyrirkomulag taldi Einar mjög athyglisvert fyrir Íslendinga að kynna sér með opnum huga.
Í samtölum við marga færeyska sjómenn kemur fram að þeir telja fjölda sóknardaga í fiskveiðikerfinu þeirra vera það ríflegan að þeir hefðu lítil áhrif á veiðar velflestra báta og skipa.
Sé það rétt, stendur svæðafyrirkomulagið eftir sem meginstoð færeyska fiskveiðistjórnunarkerfisins.