Hafrannsóknastofnun gagnrýnd

Á fundum svæðisfélaganna í haust var Hafrannsóknastofnun nokkuð á milli tannanna á mönnum. Flestir töldu stofnunina þurfa að nálgast skoðanir sjómanna meir og fá þannig betri upplýsingar um það sem væri að gerast í núinu. Aðalfundur sendi frá sér tvær ályktanir sem lúta að starfsemi Hafró.

Hafró í endurskoðun

Aðalfundur LS skorar á stjórnvöld að endurskoða starfsemi Hafrannsóknastofnunar og fá fleiri aðila til sjálfstæðra hafrannsókna.

Lífríki á grunnslóð

Aðalfundur LS lýsir yfir áhyggjum á breytingum í lífríkinu á grunnslóð. Breytt göngumynstur loðnu ásamt viðvarandi viðkomubresti sandsílis hefur haft mikil áhrif á vaxtarhraða og veiðanleika þorsks á grunnslóð.Adalf_Halldor_2550-100-7.jpg Einnig hefur þetta ástand haft áhrif á varp fugla á svæðinu.
Lýst er furðu á sinnuleysi Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að rannsóknum á ástæðu fyrir þessum breytingum. Þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi til að bera marga mjög hæfa starfsmenn á sviði sjávarlífsfræði, virðist áhugi og getuleysi vera allsráðandi þegar kemur að því að rannsaka og útskýra náttúrulegar sveiflur og hvort samspil sé á milli veiða og veiðarfæra, eins og t.d. flottrolls og sumarveiði á loðnu sé að ræða.
Lögð er áhersla á að aukinn kraftur sé settur í öflun átu- og svifsýna á grunnslóð til að samanburður á grunnþáttum vistkerfisins milli ára sé til staðar fyrir framtíðarrannsóknir.

Myndin er af Halldóri Kristinssyni frá Rifi sem sagði nauðsynlegt að sýna Hafró mikið og gott aðhald, enda ættu útgerðar- og sjómenn allt sitt undir því að tillögur stofnunarinnar væru vandaðar, byggðar á traustum rannsóknum og þekkingu á lífríki sjávar.