Eins og kunnugt er skrifaði Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu, bréf í kjölfar þess að sá síðarnefndi gagnrýndi vísindaveiðar Íslendinga á hvölum. Í bréfi sjávarútvegsráðherra úrskýrði hann aðferðafræðina við veiðarnar, en spurði að auki hvort Ástralir myndu ekki vilja útlista eigin aðferðir við að murka niður úlfalda og kengúrur í stórum stíl. Veiðarnar eru stundaðar úr þyrlum, sem gefur auga leið að er vægast sagt vafasöm aðferð við dýraveiðar.
Ian Campbell hefur nú brugðist við bréfi Árna Mathiesen. Viðbrögðin benda hinsvegar til að sá ágæti maður sé ekki í fullkomnu jafnvægi. Í viðtali við www.news.com.au sagði hann orðrétt (blaðið tekur fram áður en tilvitnanir hefjast að hann hafi verið ‘brjálaður’). Orðrétt úr viðtalinu:
‘Er maðurinn fífl?’ spyr hann (Ian Campbell). ‘Er hann er að biðja um nákvæmar upplýsingar um líffræðilega fjölbreytni ræktaðs lands á fundi um hvalveiðar? Þeir (Íslendingar) ættu að skammast sín’.
Campbell sagði að það væri ekki hægt að leggja að jöfnu að fella kengúrur og úlfalda við það að drepa hvali. Sprenging í fjölda úlfalda og kengúra hefði gert að verkum að nauðsynlegt væri að hemja fjölgun þeirra.
Rök umhverfisráðherra Ástralíu eru þau að mikil fjölgun hafi átt sér stað í viðkomandi stofnum. Það virðist hinsvegar ekki hvarfla að honum að sama geti átt við um hvalastofna í Norðurhöfum.
Eina spurningin sem hinn vafalaust ágæti umhverfisráðherra Ástralíu skilur eftir sig í þessari hlægilegu deilu er: Hvor er fífil?