Loðnan skiptir öllu máli

Smabatar.is sló á þráðinn til Símonar Sturlusonar, formanns Snæfells, sem stundar handfæraveiðar á bát sínum Snót SH.

Hvar ertu nú Símon?
„Ég hef verið síðustu tvær vikur að veiða á Fljótagrunni og virðist vera talsvert af fiski þar, stjörnumok á línuna kalla þeir það, 0-5-200 kg á bala og eins hefur verið ágætt á færin 1-3 tonn í ferð en er að minnka núna.“DSCF1-6-00.JPG

Hvernig er ástandið á þorskinum?
„Það er mjög gott, þá hefur það vakið athygli mína hversu lítið er af smáfiski þarna núna, mest er af blönduðum góðum fiski eða um 70-90% aflans, undirmál sést varla. Þá er mjög góður fiskur á línuna.
Þá hefur Fiskistofa verið að mæla og hef ég heyrt eftir þeim að það séu breyttir tímar á þessari alræmdu smáfiskaslóð þar sem hafa verið tíðar skyndilokanir gegnum árin
Dæmi um það er mæling úr línubát og þar sást varla fiskur undir 60 sm.“

Hvað álíta menn að valdi þessum breytingum?
„Mér skilst að þarna hafi gengið upp mikil loðna, enda sést það á fiskinum, hold- og lifrarmikill. Greinilegt er þegar ég ber þetta saman við ástandið heima (Breiðafjörðurinn) að það leikur enginn vafi á því hve miklu loðnugangan skiptir í fæðuöflun þorksins.“

Hvernig er hljóðið í körlunum?
„Það almennt ótrúlega gott. Hér er líka öll flóran, allt fullt af SH, HF, GK og KE bátum auk báta héðan frá Norðurlandinu. Eðlilegt að menn leiti hingað þar sem loðnan hefur verið hér en ekki á þeirra heimasvæði“ sagði Símon að lokum.
mai-jun 5-0-05.jpg
Myndina tók Símon af einum tignarlegum í Drangálnum, í forgrunni eru Fjarki HF og Bjartur í Vík HU.