Strandamenn orðlausir yfir afskiptum Fiskistofu við síldveiðum í beitu.

Áratugahefð er fyrir því að trillukarlar veiði síld í beitu. Að sjálfsögðu hefur ekkert verið amast við þessum veiðum enda magnið í þeim mæli að engu skiptir. Það kom því trillukörlum á Ströndum í opna skjöldu þegar eftilitsaðili Fiskistofu sá ástæðu til að hafa afskipti af veiðunum í sl. viku. Hann benti á að samkvæmt reglugerð væru síldveiðar bannaðar til 1. september.
Vissulega eru reglugerðarákvæði til að fara eftir þeim, en stundum hafa menn ekki hugmyndaflug til að sjá allt fyrir. Til dæmis að eftirlitsmenn Fiskistofu láti það hvarfla að sér að hafa afskipti af þessum veiðum. Vegna þessa mun LS óska eftir því við sjávarútvegsráðherra að við útgáfu reglugerða um bann við síldveiðum verði eftirleiðis kveðið á um að bannið nái ekki til hefðbundinna veiða á síld til beitu. Þannig hafa hinar óskrifuðu reglur verið í áratugi og ekki ástæða til að breyting verði þar á.