Trillukarlar í Stykkishólmi voru duglegir við að skemmta gestum og gangandi á sumarhátíð þeirra Hólmara „Dönskum dögum“. Á hátíðinni nú í ár sem haldin var dagana 16. – 17. ágúst héldu þeir eins og á fyrri hátíðum golfmót. Metþátttaka varð, 100 keppendur mættu og fór mótið fram í blíðskaparveðri. Sigurvegari varð Sölvi Leví Gunnarsson (trillukarlasonur) með 47 punkta.
Það vakti mikla lukku að í teiggjöf buðu mótshaldarar upp á harðfisk og LS penna. Þá voru nándarverðlaun á öllum brautum og fjöldi aukavinninga eða alls 28 verðlaun að verðmæti á þriðja hundrað þúsund.
Auk golfmótsins bauð Smábátafélagið Ægir upp á flugeldasýningu á bryggjuballinu sem var einkar glæsileg.
Formaður Smábátafélagsins Ægis er Símon Sturluson.