Grein í Fiskifréttum 10. okt – Kaldar kveðjur sjómannasamtakanna

Síðasta föstudag ritaði Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, skoðun vikunnar hér í Fiskifréttir. Orðum sínum beinir hann til þess er hér stýrir penna, með eigin túlkun á deiluefni dagsins, línuívilnun. Pistilinn las ég mér til nokkurrar ánægju – þar til kom að niðurlaginu. Æra manns, í þessu tilfelli Guðmundar Halldórssonar í Bolungarvík, er léttvæg fundin og rétt eða rangt aukaatriði. Hvað þá æra heillar stéttar, íslenskra smábátaeigenda.

Sævar gaukar að mér nokkrum góðum orðum persónulega. Ég hefði miklu frekar kosið að hann fyndi þörf til að segja eitthvað – bara eitthvað – jákvætt við eða um smábátaeigendur. Á undanförnum tveimur áratugum hefur ekki komið stakt orð frá Sjómannasambandi Íslands né systursamtökum þeirra til smábátaeigenda á jákvæðum nótum. Nú síðast komu yfirlýsingar frá nokkrum þeirra þar sem eigendum smábáta er lýst sem þrælahöldurum og mannréttindasvíðingum.

Nöturleg tilhugsun

Það hlýtur að vera nöturlegt til þess að hugsa fyrir formanninn, að á árinu 1985, skömmu fyrir stofnun Landssambands smábátaeigenda, bauðst Sjómannasambandinu að sjá um hagsmunagæslu fyrir smábátaeigendur, en vísaði því á dyr. Í dag er ég þessu ákaflega þakklátur, því viðmót Sjómannasambandsins gagnvart smábátaútgerðinni sýnir að hún hefði farið sömu leiðina og vertíðarbátaflotinn.

Talsverður hluti smábátaeigenda í dag eru núverandi og fyrrverandi félagar í Sjómannasambandi Íslands og öðrum samtökum í sjávarútvegi. Ég hef oft undrast framkomu þessara félagasamtaka við þessa menn. Á þeim bæjum eru þeir greinilega óhreinu börnin hennar Evu.

Ég þekki af eigin raun að sjórinn kallar á sína menn. Þannig eru þeir ófáir sjómennirnir á t.d. frystitogurunum sem óska þess heitast að eignast smábát og sækja sjóinn.

Mannlegum þáttum kastað fyrir róða

Öll sjómannasamtök ættu að hafa kjark til að virða þessar langanir félagsmanna. En svo er ekki á Íslandi. Hérlendis hafa þau játast hagræðingarformúlum stórútgerðarinnar og kastað fyrir róða hinum mannlegu þáttum veiðimannaþjóðar. Þjónkun þeirra undir fiskveiðikerfið hefur leitt af sér að vertíðarbátaflotinn er nánast horfinn með þeim afleiðingunum að margir veglausir sjómenn hafa farið í smábátaútgerðina. Þær eru kaldar kveðjurnar frá fyrrverandi forystumönnum þeirra.

Tertu- og snúðabakstur

Sævar tönglast á því að engin leið sé til þess að framkvæma línuívilnun nema “taka frá öðrum”. Vitaskuld veit Sævar betur. Honum er jafn kunnugt og mér að í fiskveiðikerfinu eru ótal fljótandi stærðir sem ekki eru “teknar frá öðrum”. Þetta nefnir hann ekki, enda hentar það ekki tertu- og snúðabaksturskenningunni. Dæmi um slíkar stærðir eru:

Fiskur sem kastað er fyrir borð
Meðafli í flotvörpur
Aukadráp flotvörpu á síld við möskvasmug,
HAFRÓ aflinn
Mismunur í frádragi aflaheimilda eftir því hvort hann er nokkurra daga eða dagsgamall við löndun
Afli sóknardagabáta, frá því sem gert er ráð fyrir í úthlutun (1900 tonn) og því sem þeir hafa veitt um árabil (11 – 12 þús. tonn).

Og svo mætti áfram telja. Línuívilnun getur sem hægast skipast í þessa upptalningu. Til þess þarf pólitíska ákvörðun og það veit formaður Sjómannasambands Íslands. Mín vegna má hann eyða tíma sínum í “málefnaleg” greinarskrif um línuívilnun og skrúðbúin tilmæli til mín að halda kjafti um málið, en mér segir svo hugur að hann væri að vinna umbjóðendum sínum meira gagn með því að styðja slíka pólitíska ákvörðun.

Örstutt framhjáhlaup: Er línuívilnun hvergi til bóta fyrir umbjóðendur Sjómannasambandsins, jafnvel fyrir bátaflotann sem nefndur er hér að framan? Sævar spyr hvers netamenn eigi að gjalda. Ég er algerlega sammála því að þeir njóti ívilnunar, landi þeir afla daglega. Vill hann ekki leggjast á sveifina með mér í málinu, svona til tilbreytingar?

Pandóruaskja sjávarútvegsins

Málflutningur andstæðinga línuívilnunar einkennist af trúarlegu ofstæki gegn “sértækum aðgerðum” í sjávarútvegi. Ef þetta heitir ekki að hvolfa úr dollunni hennar Pandóru – þá veit ég ekki hvað. Saga sjávarútvegsins er svo krökk af “sértækum aðgerðum” að það er vandaverk að velja úr til umfjöllunar. “Sértækar aðgerðir” fela í sér orðið ívilnun.
Sjómannasambandið, með Sævar í fararbroddi, mun t.d. verja sjómannaafsláttinn, skattaívilnun sjómanna, með ráðum og dáð, reyni löggjafinn að hrófla þar við. Ég mun styðja Sævar í þeim slag. En er sjómannaafslátturinn ekki “sértæk aðgerð” sem “mismunar” skattgreiðendum? Vitaskuld, en í mínum huga eru gild rök þar til grundvallar.
Rökin fyrir því að ívilna veiðarfærum sem valda minnstu raski á umhverfi hafsins eru þó margfalt sterkari og eiga eftir að setja mark sitt á fiskveiðistjórnun hér sem annarsstaðar um alla framtíð.

Gott fordæmi?

Með málflutningi sínum skipar Sævar og væntanlega Sjómannasamband Íslands sér í raðir þeirra sem gera kröfu sem er einsdæmi í hagsmunabaráttu hérlendis. Kjarni þess sem andstæðingar málsins heimta er að ríkisstjórnin gangi á bak orða sinna.
Ég get ekki stillt mig um að draga hér upp myndlíkingu.
Segjum sem svo að Sjómannasambandinu tækist í aðdraganda alþingiskosninga að fá landsþing stjórnmálaflokkanna til að samþykkja eitt sitt stærsta baráttumál, sem er að allur bolfiskur fari um frjálsa uppboðsmarkaði. Í kjölfarið myndu flokkarnir auglýsa þessar samþykktir í kosningabaráttu, blaðagreinar skrifaðar um ágæti þeirra og loforðin síðan færð til bókar í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Ætli yrði ekki upplit á formanninum, ef það gerðist eftir allt þetta, að hver samtökin af öðru risu öndverð og heimtuðu að ríkisstjórnin stæði ekki við gefin loforð. Og ætli sigi ekki í hann ef einstaka forystumenn sjávarútvegins krefðust þess að hann “hætti þessum málflutningi”.

Gallinn er sá að fordæmið hefur hann sjálfur gefið.

Arthur Bogason