Nýfundnalendingar berjast hart gegn framleiðslukvótum á krabbavinnslufyrirtækin

Það er fleira en grásleppa sem samtök fiskimanna á Nýfundnalandi hafa um að hugsa þessa dagana.

Í byrjun mars tilkynnti sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands, Trevor Taylor, um áætlun þess eðlis að á krabbavinnslufyrirtækin yrðu settir framleiðslukvótar, sem með tíð og tíma yrðu framseljanlegir.
Þetta hefur mætt gríðarlegri andstöðu sjómanna jafnt sem verkafólks í landi. Sjómennirnir óttast að þetta lami alla þeirra möguleika til að semja um verð og verkafólkið er þeirrar skoðunar að þetta ógni atvinnuöryggi þeirra, m.a. vegna þess að með framseljanlegum kvótum myndu smærri fyrirtækin hverfa eins og dögg fyrir sólu.

Mótmælaaðgerðir hafa staðið yfir meira og minna frá því að ráðherra gaf út þessa tilkynningu og í lok mars greiddi yfirgnæfandi meirihluti veiðimanna því atkvæði að binda flotann vegna þessa. Hann liggur enn við bryggju. Til átaka hefur komið í þinghúsinu í St. John´s og lögregla jafnframt handtekið nokkra mótmælendur.

Það var síst til að lægja öldurnar að forsætisráðherra Nýfundnalands lét hafa það eftir sér að „ef sumarið tapast, þá tapast það bara“.