Þorskurinn enn á niðurleið samkvæmt togararalli

Togararallið sem fór fram dagana 1. mars til 2. apríl s.l. ætlar síður en svo að reynast sumarglaðningur. Í dag, síðasta vetrardag, sendi Hafró frá sér fréttatilkynningu með bráðabirgðaniðurstöðum úr rallinu og enn eina ferðina ætlar „uppbygging“ þorskstofnsins að láta standa á sér.
Orðrétt segir í tilkynningunni um þorskinn:

„Stofnvísitala þorsks lækkaði um 16% frá mælingunni 2004 en óvissan í mælingunni var minni en 2004 þegar hún var óvenju mikil.
Lengdardreifingar þorsksins benda til að árgangur 2004 sé mjög lélegur, 2003 árgangurinn frekar lélegur og 2001 árgangurinn mjög lélegur. Árgangur 2002 er hinsvegar nærri meðallagi. Mest fékkst af þorski djúpt út af Norður- og Austurlandi og út af Ísafjarðardjúpi.
Holdafar þorsksins var heldur betra en árið 2004 og nærri meðallagi ef litið er á tímabilið frá 1997, en árin 1993 – 1996 var holdafar betra. Loðnumagn í þorskmögum var mjög mikið út af Vestfjörðum og fyrir norðan land en nær engin loðna fannst í þorskmögum á svæðinu frá Ingólfshöfða vestur að Látrabjargi.“

Ýsa var það heillin

Öðru máli gegnir um ýsuna. Það verðlausa kvikindi vex eins og arfi í beði og hefur stofnvísitala hennar aldrei mælst hærri í sögu togararallsins og 20% hærri en í fyrra. Um ýsuna segir m.a.:
„Lengdardreifingar benda til að árgangur 2004 sé nærri meðallagi, árgangur 2003 mjög stór, árgangur 2002 stór en árgangur 2001 lélegur.“

Aðrar tegundir

Í fyrra var stofnvísitala steinbíts ein sú lægsta frá upphafi ralls. Þetta helst óbreytt á milli ára. Ufsinn, samkvæmt mælingunni, er hinsvegar sterkur, en það er sömu sögu af honum að segja og ýsunni, að verðið gerir hann harla fráhrindandi.

Endanlegar niðurstöður í byrjun júní

Það er eflaust mörgum í fersku minni að í sömu fréttatilkynningu Hafró í fyrra kom fram að stofnvísitala þorsks hafði hækkað um 25% á milli ára. Þrátt fyrir það lagði stofnunin til niðurskurð úr 209 þúsund tonnum í 205 þúsund tonn.

Í fréttatilkynningunni nú segir að óvissan í mælingunni sé minni en á árinu 2004, þegar hún var óvenju mikil. Þessi mikla óvissa var m.a. ástæðan fyrir tillögu Hafró um niðurskurð í fyrra. í lokakaflanum segir:
„Stofnmælingin í ár gefur svipaða mynd og stofnmælingin 2004 hvað varðar magn og útbreiðslu flestra nytjastofna og staðfestir þær breytingar sem hafa sést á undanförnum árum.“

Af þessu orðalagi er erfitt að draga aðra ályktun en þá að þorskurinn sé undanskilinn „svipaðri mynd….hvað varðar….magn og útbreiðslu“, því mismunurinn á fyrstu niðurstöðum 2005 miðað við 2004 er verulegur.

Uppbygging?

Nú er hafið 21. árið frá því „uppbygging“ þorskstofnsins hófst og rúm 14 ár frá því fiskveiðikerfið var „hreinsað“ að stærstum hluta af „sóknarmarksóværunni“. Engu að síður er þorskstofninn mun minni en í upphafi og samsetning hans lélegri.
Þessi arfaslaki árangur verður pínlegri með hverju árinu. Á sama tíma og Íslendingar eru óþreytandi við að fræða heimsbyggðina um ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar, er árangurinn þessi.