Sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ – fiskveiðistjórnunarkerfin, krókaaflamark og aflamark, verði ekki sameinuð.

Í dag er haldinn aðalfundur LÍÚ. Á fundinum hélt sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson ræðu. Þar sagði hann m.a. þetta um fiskveiðistjórnunina: „Fiskveiðistjórnarkerfi okkar hefur verið mótað. Það er í aðalatriðum þrískipt:
Í fyrsta lagi, höfum við hið hefðbundna aflamarkskerfi, sem er aflahlutdeildarkerfi sem stærsti hluti veiðiréttarins fellur innan. Þetta er það sem menn hafa kallað kvótakerfið í daglegri umfjöllun. Þetta er einstaklingsbundið kerfi með framseljanlegum veiðirétti.
Í annan stað, hefur þróast býsna viðamikið fiskveiðistjórnarkerfi smábáta og ég veit að ýmsir í ykkar hópi myndu telja það full umsvifamikið. Þetta er krókaaflamarkskerfið sem er í grundvallaratriðum jafnframt einstaklingsbundið aflahlutdeildarkerfi með framseljanlegum veiðirétti.
Það er hins vegar grundvallaratriði sem ég legg mikla áherslu á að hér er um að ræða tvö aðskilin kerfi. Það á enginn að gera því skóna að múrana milli þessara kerfa eigi að rjúfa. Það væri óskynsamlegt, það myndi vekja upp deilur og væri í rauninni svik miðað við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í öndverðu. Vegna þess að aukinn veiðiréttur smábátanna var meðal annars varinn með því að þeir hefðu byggðalegu hlutverki að gegna og þess vegna bæri að leggja áherslu á sérstöðu þeirra.“EinarKrG_7-25-100.jpg
Í þriðja lagi, er það sá hluti fiskveiðistjórnunarkerfis okkar sem byggist beinlínis á byggðatengdum úrræðum. Þar á ég jafnt við línuívilnunina og byggðakvótana sem þó eru tvískiptir. Þar erum við annars vegar með byggðakvóta sem notaðir eru til þess að bregðast við aðstæðum sem upp koma þegar veiðiréttur hverfur úr byggðalagi sem háður er sjávarútvegi.
Í annan stað vísa ég til þess sem ég hef kallað, “þegar náttúran tekur burtu veiðiréttinn”, og stafar af því að aðstæður í hafinu kippa burtu forsendum til nýtingar einstakra tegunda, eins og dæmin um innfjarðarveiði í skel og rækju eru gleggst um.
Þetta eru megindrættir fiskveiðistjórnarkerfisins í dag og það er ekki ætlun mín að raska þeim. Það er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi ráðrúm og frið til þess að skipuleggja sig. Það á jafnt við um greinina í heild og einstök fyrirtæki. Það er nefnilega alveg rétt sem sagt hefur verið, að óvissan er e.t.v. verst og þess vegna skiptir það máli að stefnan sé mörkuð til framtíðar.“

Ræðan í heild: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/nr/1073