Sjávarútvegsráðherra neitar að bæta við línuívilnun í ýsu

Fyrir réttri viku fór LS fram á við sjávarútvegsráðherra að hann mundi hækka leyfilegan heildarafla í ýsu. Beiðnin var tilkomin vegna þess að áætlaður afli til línuívilnunar mundi ekki nægja út fiskveiðiárið. Í rökstuðningi var bent á gott ástand ýsustofnsins. Það kom forsvarsmönnum LS mjög á óvart að ráðherra hafnaði erindinu.
Ákvörðun ráðherra gengur þvert á umræðu sem var í aðdraganda línuívilnunar þar sem aldrei var rætt um neitt hámark á ýsu og steinbít. Þá kemur neitun ráðherra einnig á óvart þegar tekið er mið af góðu ástandi ýsustofnsins.
Í auglýsingu sem sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér í dag er tilkynnt að „frá og með 4. júlí nk. er felld niður línuívilnun í ýsu, sem ákveðin var í reglugerð nr. 669, 12. ágúst, um veiðar í atvinnuskyni 5-20-2004“.