Alls eru 10 bátar í sóknardagakerfi smábáta, sem eru þeir bátar sem hafa eins eða tveggja ára aðlögun að krókaaflamarkskerfinu. Flestir bátanna hafa heimild til að róa í 18 daga.
Þegar bátunum var flett upp á vef Fiskistofu kom í ljós að Eskey SF er komin með mestan afla, 42,5 tonn þar af 41,6 tonn af þorski. Eskey er búin með 10 daga og er því afli á hvern dag 4,2 tonn. Skipstjóri og eigandi Eskeyjar SF er Bjarni Bragason.
Að sögn Bjarna hefur hann gert út frá Flateyri. Veður hefur hamlað því að ekki hefur verið hægt að fara í fleiri róðra og segir Bjarni að ef tíðarfarið batnar ekki, þurfi hann að halda vel á spöðunum ef honum eigi að takast að nýta þá 8 daga sem eftir eru.
Næst mestan afla er Röðull GK kominn með 35,2 tonn og hefur hann notað til þess 7,5 dag sem svarar til 4,7 tonn á dag. Þessir 2 bátar skara nokkuð fram úr öðrum bátum í sóknardagakerfinu, þar sem bátur nr. 3 í röðinni er með 2,8 tonn á dag.
Alls hafa sóknardagabátarnir nýtt 42% af leyfilegum sóknardagafjölda og er aflinn kominn í 221 tonn, þar af 205 tonn þorskur.