Stjórn Fonts skorar á grásleppuveiðimenn að láta ekki frá sér hrogn á lægra verði en 51 þúsund.

Stjórn Fonts – svæðisfélag Landssambands smábátaeigenda – Kópasker – Vopnafjörður samþykkti nú í morgunsárið að hvetja grásleppuveiðimenn hvar sem er á landinu að selja hrogn ekki á lægra verði en sem samsvarar 51 þúsund.
Að sögn Marinós Jónssonar, formanns Fonts, þykir mönnum nóg komið um sögusagnir af verði. Á félagssvæðinu hafi 51 þúsund verið í umræðunni um allnokkurt skeið og framleiðendur ýmist samþykkt eða slett í góm. Sögusagnir, komnar frá framleiðendum, hafa verið um að veiðimenn væru tilbúnir að veiða grásleppuna fyrir mun lægra verð. Hann sagðist ekki kannast við neinn aðila sem væri þannig þenkjandi. Hann sagði veiðimenn gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvíldi á þeim að með of mikilli verðlækkun gæti það leitt til glundroða á kavíarmarkaðinum.
Marinó sagði nauðsynlegt að snúa nú vörn í sókn og gera öllum sem hlut ættu að máli ljóst að fjórðungs verðlækkun frá síðustu vertíð væri mjög mikil, t.d. langt umfram gengislækkun, og nú riði á að grásleppuveiðimenn segðu, hingað og ekki lengra.
Landssamband smábátaeigenda hefur reiknað út verð útfrá samþykkt Fonts og er það eftirfarandi:
Hrogn, óafhellt 347 kr/kg
Hrogn, afhellt 389 kr/kg
Hrogn, afhellt og staðin yfir nótt 410 kr/kg.